Samráð um reglugerð um stofnun og starf fagráða Menntamálastofnunar
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur undirbúið eftirfarandi tillögu að reglugerð um stofnun og starf fagráða Menntamálastofnunar.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur undirbúið eftirfarandi tillögu að reglugerð um stofnun og starf fagráða Menntamálastofnunar. Tillagan fer nú í opið samráðsferli þar sem almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir.
Samkvæmt 4. gr. laga um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, ber mennta- og menningarmálaráðherra að setja reglugerð um stofnun og starf fagráða.
Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru eftirfarandi:
- Kveðið er á um hlutverk og skipan fagráða með 2. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt því skulu fagráð vera Menntamálastofnun til ráðgjafar og aðstoðar svo stofnunin geti sem best sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í greininni koma fram þau starfssvið sem fagráðin starfa á. Forstjóri setur fagráðin á fót og þar eiga sæti fimm sérfróðir fulltrúar en auglýst skal opinberlega eftir aðilum í fagráð.
- Í 3. gr. kemur fram að við skipan í fagráð skuli hafa til viðmiðunar að viðkomandi aðili hafi faglega þekkingu og reynslu á starfssviði fagráðsins, að leitast skuli við að fagráð endurspegli sem best það starf sem tengist viðkomandi sviði og að þar sitji aðilar sem búa yfir mikilli hæfni, þekkingu og reynslu af starfi á vettvangi skóla, fræða- og rannsóknasamfélags og atvinnulífs og að taka skuli mið af því að hvert fagráð verði skipað einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn. Þar að auki er mælt fyrir um að starfsmaður Menntamálastofnunar skuli vinna með fagráðinu og þess skuli gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast.
- Samkvæmt 4. gr. skiptir fagráðið sjálft með sér verkum og setur verklagsreglur. Þau skulu starfa samkvæmt árlegri starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og leggja mat á viðfangsefni sín á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga og gagna. Fagráðin skulu að lágmarki halda einn samráðsfund árlega. Fulltrúar fagráða skulu gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni, gera grein fyrir mögulegum hagsmunatengslum, starfa af vandvirkni og heiðarleika, tileinka sér vinnubrögð sem skapa traust á starfi þeirra og stofnuninni og gæta þagmælsku um það sem þeir fá vitneskju um vegna setu sinnar í fagráði. Upplýsingar um starfsemi fagráða og fundargerðir þeirra skal birta á vef stofnunarinnar.
Frestur til að gera athugasemdir eða senda inn umsagnir um drögin er til og með 29. febrúar 2016. Umsagnir og/eða athugasemdir sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] merkt í efnislínu: Samráð um reglugerð um stofnun og starf fagráða