Hoppa yfir valmynd
2. mars 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Endurskipun hæfnisnefndar

Í janúar síðastliðnum auglýsti ráðuneytið embætti skrifstofustjóra á skrifstofu viðskipta-, nýsköpunar- og ferðamála laust til umsóknar. Í framhaldinu var skipuð þriggja manna ráðgefandi nefnd til að meta hæfni umsækjenda og setti hún sér starfs- og matsreglur áður en kunnugt varð hverjir sæktu um starfið. Alls bárust 38 umsóknir og ljóst má vera að þegar umsóknir eru jafn margar og raunin varð á er erfitt að komast hjá því að upp komi tilvik þar sem einhver nefndarmaður telur rétt að segja sig frá þátttöku í mati á umsókn einhvers umsækjenda.

Þegar umsóknir lágu fyrir og nefndarmenn tóku að kynna sér þær kom í ljós að einn nefndarmanna taldi að vegna persónulegra tengsla við tvo umsækjendur væri ekki rétt að hann tæki þátt í hæfnismati viðkomandi einstaklinga. Annar nefndarmaður komst að sömu niðurstöðu vegna óbeinna persónulegra tengsla við einn umsækjanda. Rétt er að taka fram að í engu tilfellanna var um að ræða skýlausar vanhæfnisástæður í skilningi stjórnsýslulaga heldur mótaðist afstaða nefndarmanna af ítrustu varfærnissjónarmiðum. Umræddir nefndarmenn tóku því ekki þátt í viðtölum við þá umsækjendur sem um ræðir. Var öllum umsækjendum sem komu í viðtal gerð grein fyrir þessu verklagi.

Í þeim tilvikum sem að nefndarmaður vék sæti þá fyllti starfsmaður nefndarinnar, sem hefur áratuga reynslu við mannaráðningar, skarð hans sem nefndarmaður ad hoc. Var ekki talin ástæða til að ætla annað en að þetta verklag stæðist allar kröfur um góða stjórnsýslu.

Eftir að viðtölum var lokið kom fram kvörtun frá einum umsækjanda þess efnis að þar sem um væri að ræða heildstætt ferli, sem lýkur með því að einn einstaklingur er ráðinn, þá þurfi allir nefndarmenn að fjalla um alla umsækjendur.

Ráðuneytið hefur farið yfir ábendinguna með hæfnisnefndinni og er það sameiginleg niðurstaða að það séu hagsmunir allra aðila að ekki skapist óvissa eða ágreiningur um ráðningarferlið sem slíkt, eins og orðið gæti ef hæfnisnefndin í núverandi mynd héldi lengra í störfum sínum. Þá mun ráðuneytið beina því til forsætisráðuneytisins að settar verði leiðbeinandi verklagsreglur um störf hæfnisnefnda til að skýra ýmiss álitamál sem geta komið upp í störfum þeirra.

Með hliðsjón af framansögðu hefur verið ákveðið að endurskipa nefndina og hefja matsferlið að nýju.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta