Hoppa yfir valmynd
4. mars 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Ríkisendurskoðun; reiknilíkan um fjárþörf heilbrigðisstofnana

Ríkisendurskoðun
Ríkisendurskoðun

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu þar sem fylgt er eftir athugasemdum sem stofnunin gerði við heilbrigðisráðuneytið árið 2013 varðandi reiknilíkan sem notað er til að meta fjárþörf heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Ekki er talin þörf á að ítreka ábendingarnar en stofnunin hvetur ráðuneytið til að bregðast við uppsöfnuðum rekstrarhalla heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Í tilkynningu sem Ríkisendurskoðun birtir í tilefni eftirfylgniskýrslunnar segir:

,,Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að bregðast sem fyrst við uppsöfnuðum rekstrarhalla fimm heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem nam tæplega einum milljarði króna á síðasta ári.

Heilbrigðisyfirvöld nota sérstakt reiknilíkan til að meta fjárþörf heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Tillögur til Alþingis um fjárveitingar til stofnananna hafa m.a. byggst á útreikningum þessa líkans.

Árið 2013 hvatti Ríkisendurskoðun velferðarráðuneytið til að

  • Tryggja aðgengi forstöðumanna að líkaninu og auka gagnsæi og læsileika þess svo ekki færi milli mála hvernig það væri notað til útreikninga.
  • Uppfæra líkanið árlega með tilliti til breyttra forsendna, s.s. launa- og verðlagsbreytinga og nýrra upplýsinga um starfsemi og rekstur heilbrigðisstofnana.
  • Kanna hvort forsendur líkansins væru raunhæfar sem viðmið við að leggja línur um fjárveitingar.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar telur stofnunin ekki þörf á að ítreka þessar þrjár ábendingar. Vel­ferðar­­ráðuneytið vinni að þróun nýrra fjármögnunarlíkana fyrir heilbrigðis­þjón­ustu sem taki mið af því að rekstr­arfjármagn stofnana endurspegli þann sjúklinga­hóp sem þær þjóna. Um leið munu rekstraraðilar stofnana fá rafrænt upplýsingar um út­reikn­inga sem hafa áhrif á fjárheim­ildir þeirra.

Hallinn mestur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Engu að síður hvetur Ríkisendurskoðun ­ráðuneytið til að leita leiða til að bregðast sem fyrst við miklum uppsöfnuðum halla fimm heil­brigðisstofnana á landsbyggðinni. Árið 2015 nam hann samtals 956 milljónum króna og hafði meira en tvöfaldast frá árinu 2012. Um er að ræða Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Af þessum stofnunum var uppsafnaður halli langmestur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (391 milljón króna) og næstmestur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (270 milljónir króna)."

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta