Hoppa yfir valmynd
9. mars 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Noregs funduðu í Bergen

Ísland og Noregur

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þingaði með norskum starfsbróður sínum, Per Sandberg, í Bergen í fyrri viku. Vel fór á með ráðherrunum, góður andi ríkti á fundinum enda eru samskipti ríkjanna á sviði sjávarútvegs almennt góð.

Sigurður Ingi ræddi meðal annars hlutdeild og þátttöku Norðmanna í rannsóknum á loðnustofninum, en Íslendingar hafa einir séð um framkvæmd þeirra fram að þessu. Per Sandberg lýsti vilja Norðmanna til að taka beinan þátt í rannsóknunum og bíður það úrlausnar embættismanna hvernig staðið verður að því.

Einnig var rætt um hvort íslenskar útgerðir mættu veiða svo kallaðan „rússaþorsk“, í lögsögu Noregs, en þyrftu ekki að sækja hann alla leið í rússneska hluta Smugunnar, enda um sama stofn að ræða. Slíkt myndi gera veiðarnar hagkvæmari og hefði í för með sér jákvæð umhverfisáhrif vegna skemmri siglinga. Norðmenn tóku jákvætt í þessa málaleitan og bíður hún einnig útfærslu viðkomandi ráðuneyta.

Ráðherrarnir ræddu jafnframt sameiginlega hagsmuni vegna uppsjávarveiða og deilistofna og voru sammála um að mikilsvert væri að öll ríki sem eiga hagsmuna að gæta nái sátt um þá. Einnig voru til umræðu væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna á sviði rekjanleika fiskafurða og voru ráðherrarnir sammála um að brýnt væri að Íslendingar og Norðmenn hefðu samvinnu um viðbrögð vegna þeirra, enda miklir hagsmunir í húfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta