Hoppa yfir valmynd
11. mars 2016 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tillaga að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum

Eygló Harðardóttir og Birkir Jón Jónsson
Eygló Harðardóttir og Birkir Jón Jónsson

Lagt er til að hámarksgreiðslur foreldris úr Fæðingarorlofssjóði verði 600.000 kr. á mánuði og að tekjur allt að 300.000 kr. á mánuði skerðist ekki, líkt og nú er. Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði félags- og húsnæðismálaráðherra niðurstöðum sínum í dag. 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði starfshóp til að móta tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum í desember 2014. Skýrsla með greinargerð og tillögum að breytingum var kynnt ráðherra í dag.

Formaður hópsins var Birkir Jón Jónsson en auk hans áttu þar sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Allir fulltrúarnir standa að baki skýrslu hópsins en ekki náðist samstaða um allar tillögurnar, líkt og fram kemur í fyrirvörum með lokaskýrslu.

Eygló Harðardóttir ráðherra sagði þegar hún tók við skýrslunni úr hendi formanns starfshópsins í dag að tillögurnar endurspegli skýra sýn og almenna samstöðu um grundvallarmarkmið fæðingarorlofsins, þrátt fyrir fyrirvara. „Það verður að hækka hámarksgreiðsluna svo fólk sjái sér fært að nýta þennan rétt í meira mæli en verið hefur síðustu ár og síðast en ekki síst finnst mér mikilvægt að bæta stöðu þeirra sem hafa lágar tekjur og millitekjur, líkt og tillögur hópsins gera ráð fyrir.“

Í skýrslu hópsins er rakin þróun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá því að lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett árið 2000, gerð grein fyrir helstu breytingum varðandi réttindi og fjárhæðir frá því að lögin voru sett og dregnar fram ýmsar upplýsingar sem lýsa fylgni milli tekna foreldra og nýtingu þeirra á rétti sínum til fæðingarorlofs. 

Sátt um meginmarkmið fæðingarorlofskerfisins

Aðilar eru sammála um að það skuli vera meginmarkmið að báðir foreldrar nýti að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs til að vera með börnum sínum, að foreldrar nýti sameiginlegan rétt sinn að jöfnu, að dregið verði úr tekjumissi foreldra meðan á orlofi stendur og að fæðingarorlofskerfið sé til þess fallið að jafna stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. 

Megintillögur að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum samkvæmt meðfylgjandi tillögum lúta að greiðslum og fjárhæðum en einnig er fjallað um lengingu orlofsins, skiptingu þess milli foreldra og loks er lagt til að bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar verði brúað. Tillögurnar eru eftirfarandi: 

Hækkun greiðslna og afnám skerðinga vegna tekna að 300.000 kr. á mánuði

Í gildandi kerfi fær foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nema 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri upphæð en 370.000 kr. á mánuði. 

Tillögurnar gera ráð fyrir því nýmæli að tekjur foreldris að 300.000 krónum á mánuði skerðist ekki en að foreldrar fái 80% af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300.000 kr. Miðað er við að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækki úr 370.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. á mánuði. 

Gert er ráð fyrir að kostnaður Fæðingarorlofssjóðs verði 10,7 milljarðar króna árið 2017 vegna þessara breytinga og um 12,2 milljarðar kr. á ári eftir það. Miðað við óbreytt fyrirkomulag er  áætlað að útgjöld sjóðsins verði 8,8 milljarðar króna á þessu ári.

Lagt er til að þessar breytingar komi til framkvæmda 1. janúar 2017. 

Fæðingarorlof lengt úr 9 mánuðum í 12

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að mikilvægt sé að auka samfellu frá þeim tíma sem fæðingarorlofi foreldra lýkur þar til barn kemst í leikskóla. Lagt er til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr 9 mánuðum í 12. Tíu mánuðir skiptist til helminga milli foreldra barns en tveir mánuðir verði sameiginlegir.

Lagt er til að lenging fæðingarorlofs komi til framkvæmda í áföngum frá 1. janúar 2019 til 1. janúar 2021. 

Áætlað er að kostnaðarauki Fæðingarorlofssjóðs vegna lengingar fæðingarorlofsins geti numið á bilinu 4,45 – 5,15 milljarðar króna. 

Leikskóladvöl tryggð í framhaldi af fæðingarorlofi

Í skýrslu starfshópsins er bent á að hér á landi sé atvinnuþátttaka kvenna mikil og vinnutími karla og kvenna nær jafnlangur. Mikilvægt sé fyrir jafnrétti kynjanna að unnt verði að bjóða börnum dvöl á leikskóla eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Af þessum ástæðum m.a. sé mikilvægt að leita leiða sem geri mögulegt að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur. 

Lagt er til að stofnuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem vinni þarfagreiningu og aðgerðaáætlun um leiðir, þ.m.t. fjármögnun, sem gerir mögulegt að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur frá 1. janúar 2021. Kostnaður af þessu hefur ekki verið áætlaður. 

Starfsmenn starfshópsins voru sérfræðingar frá velferðarráðuneytinu og Vinnumálastofnun, auk þess sem forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs vann náið með starfshópnum. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira