Vinnu við að treysta innviði ferðaþjónustunnar miðar vel
"Næst á dagskrá er að fylgja þeirri stefnumörkun sem lögð er fram í Vegvísi fyrir ferðaþjónustu. Og í fréttum er það helst að okkur miðar vel á þeirri vegferð að treysta undirstöður og innviði."
Þetta var inntakið í ræðu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Ferðaþjónustudegi SAF sem bar yfirskriftina "Næst á dagskrá".
Ráðherra kom víða við í ræðunni og ræddi m.a. fjölgun erlendra ferðamanna, öryggismál, tekjuöflun, hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar.
Ráðherra sagði m.a.
Ferðaþjónustan er í eðli sínu þannig að hún blandast nánast inn í alla þætti atvinnulífs og stjórnsýslu. Af því leiðir að það er enginn einn ábyrgðaraðili sem ber ábyrgð á öllu sem viðkemur ferðaþjónustunni ... Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber á ábyrgð á ferðaþjónustu sem atvinnugrein sem og almennum úrbótum og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Þar er stærsta og mikilvægasta tækið Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem nú er fjármagnaður sem aldrei fyrr.Síðan er það umhverfis- og auðlindaráðherra sem er hér í dag og sýnir mikilvægi þess og áhuga hennar á að tengjast þessum málaflokki og ég fagna nærveru hennar hér sérstaklega. Umhverfis- og auðlindaráðherra ber m.a. ábyrgð á úrbótum og uppbyggingu á aðstöðu til móttöku ferðamanna í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Landvarsla við Gullfoss, hálkuvarnir, rekstur salernis við Dimmuborgir og upplýsingagjöf við Skaftafell, Ásbyrgi og Dettifoss eru dæmi um verkefni á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hennar stofnana.
Forsætisráðherra ber ábyrgð á Þingvallaþjóðgarði, hálkuvörnum og salernum meðtöldum og þjóðlendum almennt.
Innanríkisráðherra ber ábyrgð á samgöngum, vegakerfi, löggæslu og öryggismálum – öllum þeim verkefnum sem falla mega undir öryggismál.
Fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á tekjuöflun ríkisins og skattaumhverfi greinarinnar svo að dæmi séu tekin.
Sveitarfélögin eru einnig mikilvægur hlekkur enda eru margir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón sveitarfélaga og þar með á þeirra ábyrgð. Seljalandsfoss í klakaböndum, pallurinn meðtalinn, eru dæmi um það sem og yfirfull bílastæði á sama stað.
Síðan má ekki gleyma greininni sjálfri enda augljóst að til þess að atvinnugreinin haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti fyrir samfélagið er nauðsynlegt að góð samvinna sé milli greinarinnar og hins opinbera.
Það er einmitt einn megin styrkur Stjórnstöðvar ferðamála að í stjórn hennar koma allir þessir aðilar saman við eitt borð – til að samhæfa aðgerðir, einfalda ákvörðunarferli og útrýma flækjustigum. Það er nefnilega alveg rétt sem forsætisráðherra nefndi hér áðan að kerfið getur verið ótrúlega flókið og þvælið. Þarna ætlum við að stytta boðleiðir og láta verkin tala.
Við erum einmitt nú með á borði ríkisstjórnar tillögur til úrbóta á öryggismálum ferðamannastaða sem unnar voru á vettvangi Stjórnstöðvar og vonumst ég til að við náum að klára þær hratt og vel á næstu dögum.