Námsstefna um nýjar lausnir, tækni ogsmáforrit í kennslu og þjálfun
Í dag var haldin á vegum Raddlistar námsstefna um nýjar lausnir, tækni og smáforrit í kennslu og þjálfun. Námstefnan var ætluð kennurum, stuðningsaðilum sérstofnana, heilbrigðis- þjálfunarstéttum, foreldrum og öðrum sem starfa með börnum og fullorðnum, auk annarra áhugasamra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði námsstefnuna og taldi hana vera góðan stuðning við Þjóðarsáttmáli um læsi, sem er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Þjóðasáttmálinn er í senn yfirlýsing og samningur við hvert sveitarfélag í landinu um sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis og að unnið verði eftir fremsta megni að því marki að a.m.k. 90% nemenda í hverju sveitarfélagi geti lesið sér til gagns við lok grunnskóla árið 2018.
Ráðherra sagði að vel hefði tekist til með að byggja upp samstöðu á landsvísu um eflingu læsis og hann hafi lagt mikla áherslu á að sem flestir væru virkir þátttakendur í verkefninu bæði innan og utan skólasamfélagsins.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Rebecca Bright talmeinafræðingur og frumkvöðull á sviði tækni og tjáskipta. Hún er meðstofnandi fyrirtækisins Therapy Box sem hefur sérhæft sig í gerð smáforrita sem nýtast mjög víða í starfi skóla, sérdeilda og heilbrigðisstofnana. Þá var á ráðstefnunni fjöldi áhugaverðra fyrirlestra, kynninga á nýjum íslenskum smáforritum og fjallað var um bestu leiðir til að innleiða smáforrit í kennslu og þjálfun.