Háskólanám í Vestmannaeyjum í haftengdri nýsköpun
Á undanförnum árum hefur orðið mikil verðmætaaukning í sjávarútvegi vegna margháttaðrar nýsköpunar sem byggist á samstarfi hefðbundins sjávarútvegs og fyrirtækja m.a. í líftækni, upplýsingatækni, véltækni og fjölmörgum öðrum atvinnugreinum. Næsta haust hefst kennsla í haftengdri nýsköpun í Vestmannaeyjum og er námið á vegum Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Meðal námskeiða sem kennd verða eru nýsköpun og stofnun fyrirtækja, markaðsfræði, rekstrarstjórnun, alþjóðaviðskipti, upplýsingatækni og veiðitækni. Kennarar eru frá viðskiptadeild HR, auðlindadeild HA og fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Nemendur munu í samstarfi við fyrirtæki í Eyjum vinna styttri og lengri verkefni sem snúa meðal annars að vinnslutækni, skráningu, ferlum og markaðsmálum. Þeir kynnast þannig virðiskeðjunni sem hefst við veiðar og lýkur á borði neytenda út um allan heim.
Það eru mikil tækifæri í sjávarútvegi og vel menntaðir og kraftmiklir einstaklingar eru grunnurinn að áframhaldandi sókn.
Námið er þrjár annir og veitir diplómagráðu í haftengdri nýsköpun en útskrifaðir nemendur munu einnig geta nýtt einingar í áframhaldandi nám við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri.