Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Samningur við Rússa um veiðar í Smugunni

Ísland og Rússland

Ísland og Rússland undirrituðu í dag samning um veiðar íslenskra skipa á árinu 2016 í rússneskri lögsögu og munu Íslendingar samkvæmt honum geta veitt allt að 8.158 tonn af þorski. Þar ef eru 5.098 tonnum úthlutað beint en eftir er að semja um verð vegna 3.060 tonna sem íslenskar útgerðir hafa rétt til að kaupa af Rússum.

Samningurinn byggir á þríhliða samningi Íslands, Noregs og Rússlands frá árinu 1999 um veiðar á þorski í Smugunni (Smugusamningur). Ísland og Rússland semja árlega um veiðar hvers árs en á fundi í desember í fyrra náðist ekki að landa samningi.

„Sendinefndir landanna hafa unnið góða vinnu við að komast að samkomulagi og það er ánægjuefni að samningur skyldi vera undirritaður á framhaldsfundinum í dag.“ Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Á fundinum kom fram að Rússar hafa áhuga á því að endurskoða ákveðin atriði í Smugusamningnum í aðdraganda mögulegrar endurskoðunar hans árið 2018. Jafnframt lýstu þeir yfir áhuga á því að auka samstarf milli þjóðanna á sjávarútvegssviðinu.

Sendinefnd Íslands var skipuð þeim Jóhanni Guðmundssyni skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem var formaður hennar, Steinari Inga Matthíassyni fulltrúa Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Ilona Vasiliev viðskiptafulltrúa í íslenska sendiráðinu í Moskvu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta