Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Lagt til að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hækki í 25%

Tökur á Fortitude - mynd

Hækkun á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar úr 20% í 25%, fimm ára framlenging á endurgreiðslukerfinu og einföldun stjórnsýslu eru helstu nýmælin í frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem hún mælti fyrir á Alþingi í gær. 

Helsta ástæða þess að lagt er til að hlutfall endurgreiðslu verði hækkað í 25% er að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður erlendra kvikmyndaverkefna. Alþjóðleg samkeppni landa og landsvæða á þessu sviði fer stöðugt vaxandi og sem dæmi má nefna að í janúar s.l. tóku gildi lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í Noregi þar sem að hlutfall endurgreiðslna er 25%.

Endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar var komið á á árinu 1999 og síðan hefur það verið ein meginstoðin í eflingu innlendrar kvikmyndagerðar og stuðlað að fjölgun verkefna og auknu umfangi sem síðan hefur leitt af sér fjölgun fagstarfa á ársgrundvelli. Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá síðasta ári kemur fram að um 1.000 einstaklingar vinni árlega við og í tengslum við kvikmyndaverkefni sem njóta endurgreiðslu. 

Í frumvarpinu er lagt til að sjálfstæð nefnd hafi umsjón með endurgreiðslum. Jafnframt er skýrt kveðið á um kæruleiðir. Er það lagt til í anda góðrar stjórnsýslu, til einföldunar og í samræmi við ábendingar frá Ríkisendurskoðun.

Í nýlegri skýrslu frá Capacent kemur fram að skatttekjur vegna umsvifa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinum séu 7,3 milljarðar króna, en 12 milljarðar alls ef áhrif iðnaðarins á komu ferðamanna hingað til lands eru tekin með. Er það mat Capacent að framlög ríkisins til greinarinnar, þar með talin til RÚV, Kvikmyndasjóðs og endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, séu helmingi lægri en þær skatttekjur sem ríkið fær á móti frá greininni. Hver króna skili sér því tvöfalt til baka.

Við gerð frumvarpsins voru skoðaðar reglur um endurgreiðslur í öðrum löndum m.a. í Noregi, Bretlandi, Tékklandi, Nýja-Sjálandi og Ítalíu.

Gildistími núgildandi laga rennur út í lok árs 2016. Gildistaka nýrra laga er háð samþykki ESA þar sem að endurgreiðslukerfið felur í sér ríkisaðstoð.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta