Iðnaðar- og viðskiptaráðherra stýrir umræðum á IMEX ferðakaupstefnunni í Frankfurt
IMEX ferðakaupstefnan verður haldin 19-21. apríl en hún er ein stærsta kaupstefna sinnar tegundar í heiminum þar sem megináherslan er lögð á „MICE-markaðinn“, þ.e. þann hluta ferðaþjónustunnar sem snýr að ráðstefnum, hvataferðum, sýningum og viðburðum hvers konar. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun á þriðjudaginn stýra sérstökum umræðum (Politicians Forum) þar sem stjórnmálamenn og forystumenn í ferðaþjónustu ræða samkeppnishæfni landa á þessum markaði.
Í Vegvísi í ferðaþjónustu er lögð áhersla á aukna arðsemi ferðaþjónustunnar. Liður í því er að auka hlutdeild Íslands á „MICE-markaðinum“ en kannanir sýna að um 7% erlendra ferðamanna á Íslandi koma vegna viðburða af þessu tagi og að meðaleyðsla þeirra á dag sé um tvöfalt meiri en hjá hinum hefðbundna ferðamanni.