Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Gunnar Bragi fundaði með sjávarútvegsráðherrum Kanada og Noregs

Gunnar Bragi og Hunter Tootoo

Samstarf á sviði sjávarútvegs og mikilvægi góðrar umgengni og sjálfbærrar nýtingar á fiskistofnum voru meginatriðin á fundum Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með Per Sandberg sjávarútvegsráðherra Noregs og Hunter Tootoo sjávarútvegsráðherra Kanada.

Á fundinum með Hunter Tootoo ræddu þeir Gunnar Bragi m.a. tengsl Kanada og Íslands á sviði sjávarútvegs, umhverfismál og norðurslóðir auk þess sem þeir ræddu stjórnun fiskveiða til þess að tryggja sjálfbærni þeirra. Þess má geta að Hunter Tootoo er fyrsti sjávarútvegsráðhera Kanada af ættum innúíta frumbyggja Kanada.

Í viðræðum Gunnars Braga og Per Sandberg ræddu þeir m.a. mikilvægi náins samstarfs þjóðanna á vettvangi sjávarútvegs og mikilvægi þess að tryggja skynsamlega nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Fundir ráðherranna voru haldnir í Brussel en þar sóttu þeir allir sjávarútvegssýningarnar Seafood Expo Global og Seafood Processing Global. Sjávarútvegssýningarnar í Brussel eru þær stærstu í heiminum og þar kynna yfir 1.700 fyrirtæki frá 75 löndum sjávarafurðir og hvers kyns tæknilausnir tengdar sjávarútvegi. Vöktu íslenskar lausnir í hvers kyns tækni, vinnslu og veiðum verðskuldaða athygli.

Gunnar Bragi: „Það er einkar ánægjulegt að fá það staðfest á sýningu sem þessari, þar sem sjávarútvegsfyrirtæki frá öllum heiminum koma saman, hve íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega. Gæði íslenskra sjávarafurða eru eins og þau gerast best sem sannast meðal annars á því hve Íslendingar fá hátt verð fyrir fiskafurðir sínar. Þá þykja margar íslenskar tæknilausnir við veiðar, meðferð afla og vinnslu hans vera í allra fremstu röð og nægir að líta til fyrirtækja á borð við Marel, 3X Technology, Skagans og fjölda annarra fyrirtækja í þessum efnum.“


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta