Hoppa yfir valmynd
6. maí 2016 Atvinnuvegaráðuneytið

Ragnheiður Elín á ársfundi alþjóðasamtaka þingkvenna

Ragnheiður Elín ásamt Majd Shweikeh ráðherra upplýsingamála í Jórdaníu og Guler Turan þingkonu frá Belgíu
Ragnheiður Elín, Majd Shweikeh og Guler Turan

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra sótti í vikunni ársfund alþjóðasamtaka þingkvenna, Women in Parliaments (WIP), í Amman í Jórdaníu. Á fundinum tók ráðherra þátt í pallborði þar sem sjónum var beint að því hvernig auka megi hlut kvenna í efnahagslífinu en áætlað er að einungis 45% kvenna í heiminum séu þátttakendur á vinnumarkaðinum.

Eins og að líkum lætur er staða þessara mála ólík eftir löndum og svæðum í heiminum og er Ísland á meðal þeirra landa sem þykja standa hvað fremst. Ragnheiður Elín tiltók m.a. löggjöf um fæðingarorlof og sagði hana hafa verið mikilvægan þátt í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þá ræddi hún einnig mikilvægi þess að að konur hefðu sambærilegan aðgang og karlar að fjármagni til stofnunar og reksturs fyrirtækja, þá möguleika sem fælust í meiri sveigjanleika á vinnumarkaði samfara nýrri tækni og gildi þess að konur mynduðu með sér tengslanet og nefndi í því sambandi sérstaklega nýstofnaðan vettvang kvenna í orkugeiranum.

Ársfundurinn fór fram í húsakynnum Jórdaníuþings og er haldinn í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Hann er sá fyrsti sem samtökin halda í Mið-Austurlöndum, en fundinn í ár sóttu um 400 konur frá 90 löndum. Á ársfundinum í ár var sérstöku ljósi varpað á þann árangur sem náðst hefur í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku í aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Meðal þátttakenda á fundinum í ár voru Dalia Grybauskaite, forseti Litháens og forseti alþjóðasamtaka kvenleiðtoga, Council of Women World Leaders, Marie Louise Coleiro Preca, forseti Möltu og Tarja Halonen, fyrrum forseti Finnlands.

Samtökin héldu fund á Íslandi árið 2014 þar sem árangur Íslands í jafnréttismálum var sérstakt umræðuefni, en árið áður höfðu samtökin veitt Íslandi viðurkenningu fyrir að vera komið lengst þjóða í að jafna stöðu kynjanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta