Dómur Hæstaréttar vegna Suðurnesjalínu 2.
Meirihluti Hæstaréttar felldi í dag úr gildi ákvarðanir sem heimiluðu Landsneti að taka land eignarnámi á fimm jörðum á Reykjanesi vegna byggingar Suðurnesjalínu 2. Hæstiréttur klofnaði í niðurstöðu sinni þar sem tveir af fimm dómurum töldu að staðfesta ætti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavikur frá 30. júní 2015 þar sem Landsnet og ríkið var sýknað af kröfum landeigenda.
Niðurstaða Hæstaréttar í dag kemur á óvart, þar sem ekki var deilt um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Í framhaldinu verður farið vel yfir niðurstöður dómsins í ráðuneytinu og lagt mat á áhrif hans og fordæmisgildi.