Til umsagnar: Hugverkastefna 2016-2022
Mikilvægustu og verðmætustu eignir fyrirtækja eru oftar en ekki hugverk þeirra og óáþreifanlegar eignir svo sem eins og vörumerki, einkaleyfi, hönnunarskráningar, viðskiptaleyndarmál eða „know-how“. Styrkur og mikilvægi hugverka og réttinda sem þeim geta fylgt hefur aukist gríðarlega með vexti þekkingariðnaðarins og fjölgun sprotafyrirtækja og frumkvöðla.
Undanfarið ár hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið unnið að gerð hugverkastefnu sem tekur til hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Slík stefna hefur ekki áður verið unnin hér á landi og því er tvímælalaust um að ræða vatnaskil þar sem að hugverkaréttindum verður gert hærra undir höfði og áhrif þeirra á verðmætasköpun og efnahagslega hagsæld fyrirtækja og samfélaga viðurkennd.
Stefnuskjalið hefur verið unnið í samstarfi sérstaks stýrihóps og vinnuhóps þar sem fjöldi aðila eiga fulltrúa. Einnig hefur vinnan farið fram í samráði við önnur ráðuneyti og fjölda hagsmunaaðila.
Drög að hugverkastefnunni eru nú birt til opinnar umsagnar. Stefnuskjalið samanstendur af almennri stefnumörkun, fræðslu og umfjöllun um hugverkaréttindi sem og aðgerðaráætlun fyrir næstu 6 árin. Flestar aðgerðir varða svið iðnaðar- og viðskiptaráðherra en þó eru einhverjar sem heyra undir önnur ráðuneyti, þá aðallega mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna málefna menntastofnana og tengsla við höfundarétt.
Ráðuneytið kallar nú eftir ábendingum og athugasemdum sem eru til þess fallnar að bæta hugverkastefnuna. Jafnframt er umsagnaraðilum velkomið að leggja til nýjar aðgerðir sem afstaða verður þá tekin til.
Athugasemdir og ábendingar óskast sendar á [email protected] merkt „Hugverkastefna“.
Frestur til að skila umsögnum er til 24. maí nk.
Frekari upplýsingar veitir Brynhildur Pálmarsdóttir, netfang [email protected]