Hoppa yfir valmynd
29. júní 2016 Forsætisráðuneytið

Drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi kynnt

Drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi hafa nú verið sett á vef ráðuneytisins til kynningar og athugasemda. Skýrslan verður hluti af úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum. Óskað er eftir því að athugasemdir berist eigi síðar en sunnudaginn 10. júlí næstkomandi á netfangið [email protected].

Sameinuðu þjóðirnar standa reglulega fyrir almennri úttekt á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum og var vinnuhópur skipaður til að halda utan um verkefnið hér á landi. Í vinnuhópnum eru fulltrúar innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Innanríkisráðuneytið stýrir verkefninu og ber ábyrgð á vinnslu þess en skýrslu Íslands á að skila eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi. Skýrslan má ekki vera lengri en 10.700 orð.

Mikil áhersla er lögð á samráð við frjáls félagasamtök og almenning í tengslum við verkefnið. Þann 7. júní síðastliðinn var haldinn opinn fundur um stöðu mannréttinda á Íslandi í Iðnó sem var vel sóttur. Margar gagnlegar ábendingar komu fram sem hafa nýst vinnuhópnum við skýrslugerðina og munu nýtast áfram í ferlinu öllu. Nú liggja fyrir drög að skýrslunni og óskar vinnuhópurinn eftir athugasemdum við efni hennar. Hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að senda athugasemdir við drögin á netfangið [email protected] eigi síðar en á miðnætti sunnudaginn 10. júlí næstkomandi.

Vinnuhópurinn vekur athygli á því að skýrslunni á að skila til Sameinuðu þjóðanna á ensku og eru meðfylgjandi drög að skýrslunni á ensku. Íslensk þýðing hennar liggur því miður ekki fyrir. Ef tungumálaörðugleikar verða þess valdandi að einhver mun ekki sjá sér fært að koma að athugasemdum er þeim vinsamlegast bent á að hafa samband við innanríkisráðuneytið í netfangið [email protected] og mun vinnuhópurinn leitast við að aðstoða viðkomandi. Að sjálfsögðu má skila athugasemdum á íslensku. Athuga skal að skjalið er ekki prófarkalesið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum