Hoppa yfir valmynd
28. október 2016 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra fundaði með aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna

Ragnheiður Elín og Elizabeth Sherwood-Randall - mynd

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fundaði í gær með Elizabeth Sherwood-Randall, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna í Washington. Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. um jarðhitamál og samstarf ríkjanna á norðurslóðum á sviði orkumála. Rætt var um starf Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og verkefni Íslendinga um heim allan á sviði jarðhita. Þá kom fram gagnkvæmur áhugi til enn frekara samstarfs ríkjanna á sviði sjálfbærrar orkunýtingar. 

Geir Haarde, Elizabeth Sherwood-Randal og Ragnheiður Elín

Ráðherra hélt einnig erindi í gær í Georgetown háskóla þar sem áherslur Íslands og staða á sviði orkumála, nýsköpunar, ferðamála og sjálfbærni var helsta  umræðuefnið. Fór ráðherra yfir fjölþættan árangur í nýsköpun, aukinn virðisauka í sjávarútvegi vegna vaxandi nýsköpunarstarfs og sprotastarfsemi og sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, m.a. hugsjónina að baki Auðlindagarðinum á Reykjanesi.

Ráðherra átti auk þess fund með dr. Pierre Audinet, aðalorkuhagfræðingi Alþjóðabankans, þar sem jarðhitamál voru helst til umræðu. Rætt var um þau verkefni sem bankinn tekur þátt í um heim allan og stefnu bankans í þeim efnum. Bankinn hefur unnið með íslenskum stjórnvöldum og sérfræðingum að jarðhitamálum til margra ára og leggur sérstaka áherslu á fjárfestingar í aukinni nýtingu jarðhita um heim allan.

Í morgun flutti ráðherra ávarp hjá bandarísku hugveitunni Atlantic Council þar sem áherslan var einkum á nýsköpun og orkumál og mun síðar í dag eiga fund um málefni orkumála á norðurslóðum með fulltrúum Fulbright Arctic Initiative Energy Group.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum