Hoppa yfir valmynd
28. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reglur um bifreiðamál hreyfihamlaðra rýmkaðar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett reglugerð sem heimilar að veita hreyfihömluðum styrki og uppbætur vegna bifreiða þótt þeir hafi ekki bílpróf ef þeir búa í sjálfstæðri búsetu og eru með persónulegan aðstoðarmann samkvæmt samningi við viðkomandi sveitarfélag.

Samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafa hreyfihamlaðir einungis átt rétt á styrkjum og uppbótum vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða ef þeir sjálfir hafa ökuréttindi eða einhver á heimilinu þar sem hinn fatlaði býr.

Í skýrslu starfshóps frá því í desember 2014, þar sem fjallað var um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks, var lögð til rýmkun þessara skilyrða, þ.e. að styrkir og uppbætur væru bundnir við að hinn hreyfihamlaði eða annar á heimili hans hefði ökuréttindi. Tillagan fól í sér sömu nálgun og nú hefur verið ákveðin með breytingarreglugerðinni sem ráðherra hefur staðfest.

Rýmkuð heimild til styrkja og uppbóta nær ekki til hreyfihamlaðra sem búa á sambýlum, heldur tekur hún til þeirra sem hafa ekki ökuréttindi en búa í sjálfstæðri búsetu og eru með persónulegan aðstoðarmann samkvæmt samningi við sveitarfélagið þar sem þeir búa. Meginmarkmið reglugerðar um styrki og uppbætur vegna bifreiða er að gera hreyfihömluðu fólki kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Áætlaður kostnaður vegna framangreindra breytinga nemur rúmum 40 m.kr. á þessu ári, um 206 m.kr. árið 2017 og um 174 m.kr. árið 2018. Jafnframt er gert ráð fyrir að árleg útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsýslu aukist lítillega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum