Hoppa yfir valmynd
29. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Kjörstöðum verður víðast hvar lokað klukkan 22 í kvöld

Kjörstöð verður víðast hvar lokað klukkan 22 í kvöld. - mynd
Kosið er til Alþingis í dag og eru alls 246.515 manns á kjörskrá. Kjörstaðir eru langflestir opnir til klukkan 22 í kvöld en nefna má að í Grímsey er kosningu lokið og var kjörkassinn þaðan kominn á talningarstað á Akureyri nokkru eftir hádegið í dag.

Innanríkisráðuneytið annast ásamt nokkrum öðrum opinberum aðilum undirbúning og framkvæmd kosninga og eru helstu samstarfsaðilar utanríkisráðuneyti, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir, sveitarstjórnir, Þjóðskrá Íslands og sýslumenn. Þessir aðilar skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosninga fari fram með skýrum og traustum hætti.

Fulltrúar innanríkisráðuneytisins, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri, heimóttu yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmunum báðum. Fram kom að engin sérstök vandamál hefðu komið upp við framkvæmd kosninganna í þeim kjördæmum en framan af degi var kjörsókn nokkru dræmari en í síðustu alþingiskosningum árið 2013.

Í innanríkisráðuneytinu verða veittar upplýsingar er varða framkvæmd kosninganna meðan kjörfundur stendur yfir eða til klukkan 22. Símanúmerið í ráðuneytinu er 545 8280. Upplýsingar fyrir fjölmiðla veitir Jóhannes Tómasson í síma 896 7416.

Á vefnum kosning.is er að finna margvíslegar upplýsingar um kosningarnar, til dæmis um þjónustu sýslumanna á kjördag vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, um kjörstaði og fjölmargt fleira.

Mikil umferð er um kosningavefinn sem síðustu viku hefur fengið um 50 þúsund heimsóknir, þar af tæplega 15 þúsund það sem af er degi.

Fulltrúar innanríkisráðuneytisins ræða við fulltrúa yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum