Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

Rík áhersla á jafnrétti kynja í umræðum á Norðurlandaráðsþingi

Eygló Harðardóttir Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org - mynd
Jafnréttismál voru ofarlega á baugi í umræðum ráðherra og þingmanna á 68. þingi Norðurlandaráðs þegar rætt var um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvernig unnið skuli að innleiðingu þeirra á Norðurlöndunum.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, var staðgengill forsætisráðherra á þinginu sem haldið er í Kaupmannahöfn og flutti ræðu fyrir Íslands hönd í umræðum á þinginu um framkvæmd heimsmarkmiðanna. Líkt og nánar er fjallað um á vef forsætisráðuneytisins sagði hún þar frá þeim fjórum málaflokkum settra markmiða sem Ísland legði sérstaka áherslu á en jafnréttismál eru þeirra á meðal. Töluverð umræða skapaðist í framhaldinu um nauðsyn þess að jafna stöðu karla og kvenna í samfélaginu, ekki síst með því að ná fullu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og þar með að tryggja körlum og konum sömu laun fyrir sambærileg störf. Var í þessu sambandi meðal annars vísað til þess hvernig auka megi þátttöku karla í umönnun barna sinna og bar þar sérstaklega á góma fordæmi Íslands varðandi fyrirkomulag fæðingarorlofs sem margir telja til eftirbreytni í þessu skyni.

Á vef Norðurlandaráðs eru birtir jafnréttisvísar Norðurlandanna en það eru margvíslegar tölfræðilegar upplýsingar þjóðanna um stöðu kynjanna á ýmsum sviðum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru sautján talsins og fela í sér áætlun um sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Fimmta heimsmarkmiðið er um jafnrétti kynja og fer hér á eftir:

Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld

  • Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar.

  • Allt ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þar með talið mansal og kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði afnumið. 

  • Allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna, verði afnumdir.

  • Ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu eins og við á í hverju landi.

  • Tryggð verði full og virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi.

  • Tryggð verði jöfn tækifæri allra til kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda, eins og samþykkt var með framkvæmdaáætlunum alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun og kvennaráðstefnunnar í Peking sem og niðurstöðum endurskoðunarráðstefna þeirra.

  • Gerðar verði umbætur til að tryggja konum jafnan rétt til tækifæra á sviði efnahagsmála, eignarhalds á og yfirráða yfir landi og eignum í annarri mynd, aðgangs að fjármálaþjónustu, arfs og  náttúruauðlinda í samræmi við landslög. 

  • Notkun stuðningstækni verði efld, einkum upplýsinga- og fjarskiptatækni, í því skyni að efla völd kvenna.

  • Sett verði öflug stefna og raunhæf löggjöf sem stuðlar að kynjajafnrétti og því að efla völd kvenna og stúlkna á öllum sviðum samfélagsins. 

 

Á þingpöllum - 68. þing Norðurlandaráðs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum