Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Parísarsamningurinn gengur í gildi á heimsvísu

Frá samþykkt Parísarsamningsin í desember í fyrra. - mynd

Parísarsamningurinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum gengur í gildi á heimsvísu í dag, 4. nóvember. Samningurinn var samþykktur í París 12. desember 2015. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd 22. apríl 2016 og Alþingi samþykkti samhljóða fullgildingu hans 19. september sl. að tillögu utanríkisráðherra. Ísland var þar með meðal fyrstu 55 ríkja sem þurftu að fullgilda til að samningurinn gengi í gildi á heimsvísu.

Parísarsamningurinn markar tímamót í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, en með honum er í fyrsta sinn kveðið á um aðgerðir af hálfu allra ríkja heims til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðildarríki samningsins setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar. Ísland sendi inn sín markmið þann 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg.

22. aðildarríkjaþing Rammasamnings S.þ. um loftslagsbreytingar hefst í Marrakesh í Marokkó 7. nóv. Það verður jafnframt fyrsta aðildarríkjaþing Parísarsamningsins, en hann er byggður á grunni Rammasamningsins, sem hefur að geyma almenn ákvæði um losunarbókhald og skyldu ríkja heims að bregðast við loftslagsbreytingum af manna völdum. Fyrir þinginu liggur m.a. að útfæra nánar ýmis ákvæði Parísarsamningsins, s.s. um bókhald ríkja varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis með skógrækt og öðrum aðgerðum, aðlögun að breytingum, fjármál o.fl.

Sóknaráætlun Íslands miðar vel áfram

Ríkisstjórnin samþykkti sóknaráætlun í loftslagsmálum í aðdraganda Parísarfundarins 2015 til að efla starf í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir framkvæmd sóknaráætlunar. Áætlunin byggir á 16 verkefnum, sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu, efla þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkja innviði loftslagsmála til að takast á við hertar skuldbindingar. Áætlunin gildir til þriggja ára og er starf undir hennar hatti hugsað sem viðbót við fyrri áætlanir og markmið. Sóknaráætlun er fyrsta heildstæða áætlun Íslands í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum og er ekki síst ætlað að virkja fleiri til góðra verka á því sviði - fulltrúa atvinnulífs, vísindamenn, stofnanir og almenning.

Samkvæmt yfirlitinu eru öll verkefnin komin af stað og sum vel á veg. Tengill á yfirlitið í heild er hér að neðan, en nokkur dæmi um verkefnin eru:

  • Í byrjun desember n.k. verður úthlutað styrkjum vegna innviðaverkefna fyrir rafbíla, en styrkir til þeirra verkefna voru auglýstir í haust.
  • Vegvísir um samdrátt í losun í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi er vel á veg komin og ljóst að útgerðir hafa mikinn áhuga á að daga úr losun.
  • Unnið er að vegvísi um samdrátt í losun í landbúnaði í samvinnu við Bændasamtökin og liggur mat á möguleikum í því sambandi nú fyrir og er unnið á grundvelli þess.
  • Sett hefur verið upp vefsíða með upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig draga megi úr matarsóun, en talið er að nú sé um þriðjungi framleiddra matvara sóað. Þá er lokið fyrstu rannsókninni á landsvísu á umfangi matarsóunar á heimilum og fyrirtækjum á Íslandi.
  • Unnið er að merkingum í landslagi við skriðjöklana í Skaftafelli og er það liður í verkefninu „Jöklar Íslands – lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar.“ Með verkefninu eru tengd saman vísindaleg vöktun jökla, fræðsla og ferðaþjónusta og er talið að þessi nálgun geti vakið mikla athygli.
  • Verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu eru komin af stað og verkefni sem miðar að endurheimt votlendis var hleypt af stokkunum með athöfn á Bessastöðum sl. sumar, þar sem mokað var ofan í skurð í landi Bessastaða.

Undir hatti sóknaráætlunar eru einnig verkefni sem eiga að stuðla að samdrætti í losun á heimsvísu, svo sem verkefni á vegum Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, aðkoma að stofnun alþjóðlegs jarðhitasambands og framlög til Græna loftslagssjóðsins.

Sóknaráætlun í loftslagsmálum – yfirlit yfir framgang verkefna (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum