Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2016 Matvælaráðuneytið

Stjórn Flugþróunarsjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki

Vindpoki
Vindpoki

Stjórn Flugþróunarsjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki í sjóðinn. Markmið sjóðsins er að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.   

Nánari upplýsingar um sjóðinn og umsóknareyðublöð eru á heimasíðu ráðuneytisins

Umsóknarfrestur er til 31. desember 2016 en umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar. Umsóknum skal skilað rafrænt á sérstöku umsóknareyðublaði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á netfangið [email protected]. Umsókn skal fylgja lýsing á fyrirhuguðum markaðsaðgerðum. 

__________________________

 Styrkir úr leiðarþróunardeild

Umsækjandi getur fengið styrk úr leiðarþróunardeild fyrir hvern lentan farþega á Akureyri eða Egilsstöðum með eftirfarandi hætti: 

  1. Vetur (október - apríl): Ef umsækjandi flýgur að lágmarki 12 flug á tímabilinu getur hann fengið 15 evrur í stuðning fyrir hvern lentan farþega. 
  2. Vor/haust (maí og/eða september): Ef umsækjandi flýgur að lágmarki 8 flug á tímabilinu til viðbótar við 12 flug á sumar- eða vetrartíma sbr. 1. og 3. tl. 1. mgr. getur hann fengið 12 evrur fyrir hvern lentan farþega. 
  3. Sumar (júní - ágúst): Ef umsækjandi flýgur að lágmarki 1x í viku og a.m.k. 12. flug á tímabilinu getur hann fengið 10 evrur í styrk fyrir hvern lentan farþega.

Ef umsækjandi flýgur tvisvar í viku og/eða er með flug í meira en þrjá mánuði samfleytt getur hann fengið 3 evrur í styrk fyrir hvern lentan farþega til viðbótar við styrk samkvæmt 1. mgr. Viðbótarstyrkur skal þó aldrei vera hærri en 50 m.kr. á ári. 

__________________________

Styrkir úr markaðsþróunardeild

Ef umsækjandi uppfyllir skilyrði leiðarþróunardeildar um tíðni flugferða getur hann fengið styrk úr markaðsþróunardeild að lágmarki 10 m.kr. fyrir hverja flugleið til að kynna viðkomandi áfangastað.

Umsækjandi gerir samning við stjórn Flugþróunarsjóðs um framkvæmd markaðssetningar. Samningurinn þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

  1. Umsækjandi leggi fram jafnháa upphæð til markaðssetningar og hann fær úr sjóðnum. 
  2. Áhersla sé á að kynna áfangastaðinn en ekki umsækjandann sjálfan. 
  3. Svæðið sé kynnt í heild sinni og í kynningarefni sé ekki ein vara á svæðinu kynnt umfram aðra. 
  4. Kveðið sé á um hvers konar verkefni umsækjanda er heimilt að ráðast í á grundvelli styrksins.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum