Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjölmennt á lokaráðstefnu Norrænu velferðarvaktarinnar

Norræn velferðarvakt - mynd

Bein útsending frá ráðstefnunni - 

Ráðstefnan er haldin á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og stendur yfir kl. 9.00–16.00


Nærri 200 manns hafa skráð sig á lokaráðstefnu Norrænu velferðarvaktarinnar 10. nóvember næstkomandi þar sem meðal annars verður sagt frá norrænum velferðarvísum, viðbrögðum velferðarkerfa í efnahagskreppum með áherslu á félagsþjónustu sveitarfélaga og getu norrænu velferðarkerfanna til að takast á við nýjar áskoranir.

Norræna velferðarvaktin er yfirskrift verkefnis sem efnt var til árið 2014 sem hluta af formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi. Verkefnið var skipulagt til þriggja ára og var markmiðið að fjalla um hvernig norrænu velferðarkerfin takast á við nýjar áskoranir og hvernig hægt sé að undirbúa velferðarkerfin á Norðurlöndunum til að takast á við vá hvort sem er vegna náttúrhamfara, erfiðleika vegna efnahagsþrenginga  eða samfélagsbreytinga.

Á ráðstefnunni verður afrakstur þessa norræna samstarfs kynntur. Að baki því liggja meðal annars viðamiklar rannsóknir á afleiðingum fjármálakreppa á Norðurlöndunum, auk samanburðar við valin Evrópulönd sem glímt hafa við efnahagskreppur. Hópur fræðimanna frá öllum norrænu löndunum hefur komið að verkefninu en stjórnun þess var á Íslandi. Auk þessa hefur verið metið hvernig norræn velferðarkerfi eru undirbúin undir hvers konar vá, með áherslu á hlutverk félagsþjónustu. Á ráðstefnunni verða kynntir nýir norrænir velferðarvísar sem einnig eru afrakstur þessa  viðamikla norræna samstarfsverkefnis.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni eru Lena Dominelli, félagsráðgjafi og prófessor í félagsvísindum við háskólann í Durham, Jonas H. Pontusson, prófessor í félagsvísindum við Genfarháskóla, Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild HÍ, Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, Håkan Nyman, sérfræðingur í sænska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við HÍ.

Ráðstefnan er haldin á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og stendur yfir kl. 9.00–16.00. Ráðstefnugjald er 2.000 kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum