Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2016 Matvælaráðuneytið

Úthlutun almenns og sértæks byggðakvóta

Löndun
Löndun

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund dregið af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa tímabundinna ráðstafana til þess að auka byggðafestu. Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur úthlutað alls 11.257 tonnum í sértækan og almennan byggðakvóta en ráðstöfunin byggir á þingsályktun 38/145, 2015-2016. 

Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 15% Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 733 tonn frá fyrra fiskveiðiári og er 5.634 tonn fiskveiðiárið 2016/2017. Stefna stjórnvalda undanfarin ár hefur verið að auka vægi sértæks byggðakvóta enda hefur hann almennt reynst vel sem byggðafestuaðgerð.

Aukningin rennur til sjö sjávarbyggða og hefur Byggðastofnun auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri í Ísafjarðarbæ, á Raufarhöfn í Norðurþingi og Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi.  Markmiðið með þessu er að stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og ná þannig að skapa og viðhalda sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum

Almennur byggðakvóti

Almennur byggðakvóti fiskveiðiárið 2016/2017 nemur alls 5.623 tonnum, sem eru 4.398 þorskígildistonn. Byggðakvótinn dregst saman um 1.264 þorskígildistonn frá fyrra fiskveiðiári, sem er samdráttur uppá rúm 22% en lækkunin skýrist m.a. af aukningu til sértæks byggðakvóta og loðnubrests.

Alls er byggðakvóta úthlutað til 31 sveitarfélags og í þeim fengu 45 byggðarlög úthlutun.

Úthlutun byggðakvótans byggir á talnaupplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2006/2007 til fiskveiðiársins 2015/2016.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá tvö byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá 7 byggðarlög þá úthlutun.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum