Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2016 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sigurður Pálsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Ævari vísindamaður hlaut sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2016.

IMG_0928
IMG_0928

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra veitti Sigurði Pálssyni rithöfundi Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2016, sem veitt eru í tilefni af degi íslenskrar tungu. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Þá veitti ráðherra Ævari vísindamanni (Ævari Þór Benediktssyni) sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2016.

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar um Sigurð Pálsson segir meðal annars: „Á löngum ferli hefur Sigurður fengist við tungumálið úr öllum áttum, af dirfsku og frumleika. Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður er einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Þá hefur Sigurður alla tíð verið mikilvirkur þýðandi og eru þýðingar hans úr frönsku ómetanlegt innlegg í flóru íslenskra bókmennta“.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Í ráðgjafarnefnd um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sátu að þessu sinni Baldur Hafstað, prófessor emerítus sem var formaður nefndarinnar, Guðrún Ingólfsdóttir íslenskufræðingur og Dagur Hjartarson kennari og rithöfundur. Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, Íslensku teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal.

Um tillögu sína að veita Ævari Þór Benediktssyni sérstaka viðurkenningu segir ráðgjafanefndin meðal annars: „Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamaður) er landsþekktur fyrir hugsjónastarf í þágu barna og unglinga, t.d. vísindaþætti í útvarpi og sjónvarpi og lestrarátak í skólum. Þannig er hvatning til skapandi hugsunar og bóklesturs áberandi þáttur í starfi Ævars Þórs.

IMG_0916

Rökstuðningur ráðgjafanefndar um Sigurð Pálsson:

Sigurður Pálsson er fæddur 30. júlí 1948 á Skinnastað. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en hefur síðustu ár sinnt kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands.

Fyrsta ljóðabók Sigurðar, Ljóð vega salt, kom út árið 1975 en önnur bók hans, Ljóð vega gerð (1980), hefst á þessum orðum: „Skrepptu með mér í ferð / út á hringveg ljóðsins“. Nú 41 ári eftir að Sigurður lagði upp í það ferðalag er óhætt að fullyrða að fáir Íslendingar hafi farið jafnlangt og víða um ljóðvegina og Sigurður. Það sést vel á fjölbreyttum yrkisefnum skáldsins sem hefur velt fyrir sér höfundi Njálu og nóttinni sem „er til þess að gráta í“. Sigurður hefur boðið lesendum upp í ljóðlínudans en líka beðið þá um að fara með sér „inn í Reykjavíkur Apótek og biðja um venjulega herraklippingu. Leggja áherslu á að hún eigi bara að vera venjuleg ef bið verður á þjónustunni“ (Úr „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“, Ljóð námu völd).

Á löngum ferli hefur Sigurður fengist við tungumálið úr öllum áttum, af dirfsku og frumleika. Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður er einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Þá hefur Sigurður alla tíð verið mikilvirkur þýðandi og eru þýðingar hans úr frönsku ómetanlegt innlegg í flóru íslenskra bókmennta. Hér má nefna ljóð eftir Paul Éluard og Jacques Prévert og nú síðast skáldsögu franska Nóbelsverðlaunahafans Patricks Modiano. Árið 2007 sæmdi Frakklandsforseti Sigurð riddarakrossi Frönsku Heiðursorðunnar (Chevalier de l'Ordre National du Mérite) fyrir framlag hans við kynningu á franskri menningu á Íslandi.

En það er sama hvort Sigurður Pálsson skrifar skáldsögur, leikrit eða gengur upp Bankastræti: Hann er alltaf ljóðskáld. Ljóðabækur hans eru nú orðnar 16 talsins og heitir sú nýjasta Ljóð muna rödd. Strax í þeim fyrstu orti skáldið um ljóðvegina. En ólíkt venjulegri vegagerð sem stefnir að því að fletja út og fara stystu leið taka vegirnir sem Sigurður hefur lagt um tungumálið óvænta stefnu. Í stað þess að líða hugsunarlaust gegnum landslagið staldra lesendur við og sjá það sem þeir sáu ekki áður:

Gluggi

einfalt orð

hvorki sannara né réttara

en öll hin orðin:

ljósapera … þorstadrykkur… kviksjá…

En það er hægt að horfa

út um þetta orð

horfa inn um það

Orðið gluggi leynir á sér

kennir okkur að horfa

út um orðin

inn um orðin

Horfa og drekka ljósið

eins og þorstadrykk

úr mjúkum perum

Kennir okkur á kviksjána

(„Gluggi“, Ljóðorkusvið)

Greinargerð ráðgjafanefndar um sérstak viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2016.

Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamaður) er landsþekktur fyrir hugsjónastarf í þágu barna og unglinga, t.d. vísindaþætti í útvarpi og sjónvarpi og lestrarátak í skólum. Þannig er hvatning til skapandi hugsunar og bóklesturs áberandi þáttur í starfi Ævars Þórs.

Í anda vísindaþáttanna eru vísindabækur Ævars, t.d. Umhverfis Ísland í 30 tilraunum, þar sem lesendurnir sjálfir fá tilraunaverkefni í hendur.

Lestrarátak Ævars er mikilvæg hvatning til eflingar lesskilnings grunnskólanemenda. Þennan þátt í starfi hans má tengja útgefnum verkum hans sjálfs, t.d. bókunum Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin goðsaga, þar sem farnar eru óhefðbundnar leiðir til að efla sköpunargleði barna og styrkja tilfinningu þeirra fyrir máli og stíl.

Það er samdóma álit nefndarinnar að Ævar Þór Benediktsson hafi unnið afar mikilvægt starf í þágu móðurmálsins og skapandi hugsunar meðal barna og unglinga.

Á vef dags íslenskrar tungu eru upplýsingar um hluta af því sem fram fer í tilefni dags íslenskrar tungu. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson, þar er hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu allt frá upphafi (1996).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira