Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Háskóli Íslands býr nemendur vel undir þátttöku í atvinnulífi

Háskóli Íslands er í 136. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla í heiminum sem teljast skila öflugustum nemendum út í atvinnulífið samkvæmt mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja.

Mynd-6
Mynd-6

Á vef Háskóla Íslands er greint frá því að skólinn er í 136. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla í heiminum sem teljast skila öflugustum nemendum út í atvinnulífið samkvæmt mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta er í fyrsta sinn sem Háskólinn kemst á listann. Á vef HÍ segir enn fremur:

"Listinn sem um ræðir nefnist Global University Employability Ranking er nú gefinn út í sjötta sinn. Franska ráðningarstofan Emerging hafði umsjón með listanum fyrir hönd Times Higher Education en framkvæmd rannsóknarinnar sem listinn byggist á var í höndum þýska markaðsrannsókna-fyrirtækisins Trendence.

Listinn byggist á tveimur ítarlegum könnunum þar sem leitað var svara hjá forsvarsmönnum alþjóðlegra fyrirtækja á ýmsum sviðum um allan heim. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að hafa að minnsta kosti 500 starfsmenn. 

Annars vegar var um að ræða netkönnun meðal 2500 starfsmannastjóra alþjóðlegra fyrirtækja í 20 löndum víða um heim og hins vegar könnun meðal um 3500 stjórnenda í fyrirtækjum víðs vegar um veröldina. Voru þeir m.a. beðnir um tilgreina þá háskóla sem þeir teldu undirbúa nemendur sína best fyrir þátttöku á atvinnumarkaði. Staða skóla á listanum var svo reiknuð út frá einkunnagjöf þessara tveggja hópa. Listinn þykir gefa mikilvæga innsýn í hversu vel skólarnir eru tengdir atvinnulífi og hversu vel námið undirbýr nemendur fyrir þátttöku í því.

150 háskólar eru á lista Times Higher Education Global University Employability Ranking og er Háskóli Íslands í 136. sæti sem fyrr segir. Þetta í fyrsta sinn sem Háskólinn kemst á þennan lista Times Higher Education en skólinn hefur verið á lista tímaritsins yfir bestu háskóla heims allt frá árinu 2011, þar sem hann er sem stendur í sæti 201-250.

Í ár er California Institute of Technology í fyrsta sæti listans yfir þá skóla sem búa nemendur sína best undir atvinnulífið og Massachusetts Intititue of Technology í öðru sæti.

Lista Times Higher Education Global University Employability Ranking og grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Times Higher Education. "

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum