Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2016 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um framtíðarbílinn og samspil sjálfvirkni bíla og vegakerfa

Ráðstefnan Bílar, fólk og framtíðin fór fram í Reykjavík í dag þar sem fjallað var einkum um tækniþróun og framtíð bílsins og umferðarinnar. Innlendir og erlendir sérfræðingar fluttu erindi um tækninýjungar og öryggisbúnað í bílum, sjálfvirkni og sjálfkeyrandi bíla. Einnig var fjallað um stöðu, þróun og framtíðaráform í bílum og samgöngum. Að ráðstefnunni stóð Vista Expo ehf. í samstarfi við Vegagerðina og Samgöngustofu og nokkra samstarfsaðila.

Rætt var um bíla fólk og framtíð á ráðstefnu í dag.
Rætt var um bíla fólk og framtíð á ráðstefnu í dag.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, setti ráðstefnuna og sagði umfjöllunarefni hennar brýnt, umferðin og allt sem henni tengdist væru gildur þáttur í samfélaginu. Miklum fjármunum væri varið í samgöngumannvirki, stór hluti heimilistekna færi í samgöngur og kostnaður samfélagsins af völdum slysa væri umtalsverður fyrir utan aðrar afleiðingar þeirra.

Ragnhildur Hjaltadóttir flutti setningarávarp.

Ráðuneytisstjórinn sagði tölfræði mikilvægan grunn til að meta búsetuþróun, bílafjöldann, slysatölur og áhrif útblásturs svo dæmi væru tekin. Í innanríkisráðuneytinu væri unnið að þróun og stefnumótun á sviði samgangna sem birtist einkum í samgönguáætlun. Í tillögu til samgönguáætlunar 2015-2026 kæmi skýrt fram að samgönguyfirvöld skuli fylgjast með tækniþróun og innleiðingu tæknilausna. Því væri lögð mikil áhersla á nýtingu upplýsingatækni við umferðarstjórnun, miðlun upplýsinga um aðstæður og samskipti milli bíla. Þar segði einnig að farið verði í gagngera skoðun á lagaumhverfi og innviðum með tilliti til sjálfkeyrandi bíla. Þá sagði hún ennfremur: „Í tillögunni er sérstakur kafli um framtíðarsýn og hvernig samgöngur til ársins gætu litið út 2050 út frá þremur sviðsmyndum:

  • Fortíðin er lykill að framtíðinni.
  • Stigvaxandi tækniþróun samgangna.
  • Bylting í samgöngum.

Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir sambærilegri þróun og verið hefur, ekki er gert ráð fyrir tæknibyltingum heldur hægfara þróun í samgöngutækjum og uppbyggingu innviða.

Önnur sviðsmyndin gerir ráð fyrir tækninýjungum sem munu hafa áhrif á þróun samgangna en þó ekki valda grundvallar breytingum á þróun samfélagsins. Áhrifin yrðu mest á uppbyggingu samgangna í þéttbýli.

Þriðja sviðsmyndin gengur lengst og gerir ráð fyrir umtalsverðum og hröðum breytingum í samgöngum sem munu hafa veruleg áhrif á uppbyggingu innviða og stuðla að breyttri búsetu, þróun og valkostum í samgöngum. Loftslagsbreytingar munu hafa veruleg áhrif á þróunina.

Allar sviðsmyndirnar gera ráð fyrir að mest verði um nýjungar í bílum, rafbílar verði ráðandi og sjálfkeyrandi bíllinn verði einnig raunhæfur möguleiki bæði sem einkabíll og í sameign.“

Í lokin sagði Ragnhildur að lokaumræða ráðstefnunnar væri grundvallarspurning sem þyrfti að svara, þ.e. hvort við værum tilbúin að takast á við breytingar. „Von mín er sú að við förum héðan með vegarnesti til stefnumótunar í framtíð enda eru mannshuganum og framtíðinni lítil takmörk sett.“

Fylgst með þróun og rannsóknum erlendis

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ræddi um vegakerfi framtíðarinnar og hvernig þróun í tæknibúnaði og sjálfvirkni í bílum getur kallað á ný viðhorf og nýja tækni sem tengist vegamannvirkjum. Kom fram í máli hans að Vegagerðin hefur undanfarin ár fylgst náið með þessari þróun. Hefur Vegagerðin meðal annars fylgst sérstaklega með rannsóknum í Finnlandi og verið boðið að taka þátt í einstökum verkefnum þar eftir því sem óskað yrði, ekki síst þeim sem snerta nýtingu slíkra tæknilausna á norðlægum slóðum við erfið skilyrði. Sagði hann Vegagerðina í stakk búna til að bregðast við nýjum kröfum og tilbúna til að koma á nauðsynlegum breytingum og aðlögun milli vegakerfa og farartækja.

Meðal annarra fyrirlesara var Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, sem fjallaði um hvort lagabreytinga væri þörf í ljósi fyrirhugaðrar þróunar í átt til aukinnar sjálfvirkni bíla. Rakti hún meðal annars þróun í Evróu og umræðu og undirbúning vegna þessara tæknibreytinga sem nú fara fram á vettvangi Evrópusambandsins.

Aðrir fyrirlesarar fjölluðu um margs konar sjálfvirkni og öryggisbúnað sem þegar er að finna í bílum og geta tekið völdin af ökumanni ef í óefni stefnir. Þá var fjallað um sjálfkeyrandi bíla sem nú þegar eru komnir á götuna og hvernig huga þarf að ýmsum breytingum til að slík tækni geti nýst til fulls. Einnig var fjallað um efnahagsleg áhrif samgangna, umhverfismál og persónuvernd sem tengist þeim gögnum sem safnast upp í upplýsingakerfum sem tengjast bílum og umferð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira