Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2016 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) 2016

NEAFC

Ársfundur Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, sá 35. í röðinni, var haldinn í London 14.–18. nóvember. Ráðið fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna einstakra ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Aðild að því eiga Danmörk (f.h. Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland. Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum. 

Samþykktar voru stjórnunaraðgerðir fyrir allmarga fiskistofna á árinu 2017, þar á meðal karfa á Reykjaneshrygg og ýsu á Rockall svæðinu. Ekki tókst hins vegar að ná samkomulagi um stjórn veiða á búra og karfa á ICES svæði I og II (stofn karfa við Noreg og Rússland). Enn fremur var fjallað um vernd og nýtingu ýmissa djúpsjávarfiskistofna.

Af hálfu Íslands var mest áhersla lögð á að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg, en þar lá nú í fyrsta sinn fyrir ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar næstu tvö ár. Um er að ræða tvo sérstaka karfastofna, sem báðir hafa verið ofveiddir um árabil og eru í útrýmingarhættu ef ekkert er að gert. Rússland viðurkennir ekki stofnmat ICES fyrir karfa við Reykjaneshrygg og setur sér einhliða kvóta sem á þessu ári er nær þrefalt meiri en ráðlögð heildarveiði. ESB og Danmörk fyrir hönd Færeyja og Grænlands hafa síðan talið óásættanlegt að Rússar sætu einir að veiðunum og lagt fram tillögu um takmarkaðar veiðar, en Ísland hefur lagt til stöðvun veiðanna. Þetta endurtók sig á fundinum nú. Tillaga Íslands um 0-veiðar 2017 og 2018 var felld en samþykkt tillaga um 7.500 tonna heildarveiði 2017. Það kom svo fram að Rússland mun setja sér einhliða kvóta upp á 25 þúsund tonn, þannig að heildarveiðin getur orðið um 30 þúsund tonn. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir Ísland.

Á ársfundinum var gerð grein fyrir aðgerðum gegn ólöglegum veiðum á úthafinu og vinnu sem nú er komin í gang til að innleiða rafræna aflaskráningu hjá NEAFC, sem mun bæta aflaskráningu og auðvelda fiskveiðieftirlit stofnunarinnar. Þá voru gefnar út skýrslur um starf tveggja vinnuhópa sem settir voru á stofn eftir síðasta ársfund og fjalla um hvernig betur megi standa að samningum milli strandríkja um skiptingu deilistofna og hvaða þættir eigi að ráða skiptihlutföllum.

Kosinn var nýr forseti til tveggja ára, Jacques Verborgh frá ESB, sem leysir af hólmi Johán H. Williams frá Noregi, en kjörtími hans er á enda. Janet Nørregaard frá Færeyjum var kjörin varaforseti í stað Andrew Thomson frá ESB, en þessi embætti færast milli aðildarríkja eftir ákveðinni röð.

Þá var gengið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra, en Stefán Ásmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri NEAFC frá 2011, lætur af störfum um mitt ár 2017. Við starfinu tekur Darius Campbell sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra OSPAR.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum