Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Norðurlandaþjóðir sameinast um velferðarvísa

Norrænir velferðarvísar
Norrænir velferðarvísar

Norrænir velferðarvísar; verkefni sem miðar að því að útbúa samanburðarhæfan gagnagrunn um velferð fólks á Norðurlöndunum, er komið vel á veg. Valdir hafa verið 30 vísar í þessu skyni sem gera kleift að fylgjast með þróun velferðar og bera saman aðstæður milli landanna.

Hugmynd að norrænum velferðarvísum er eitt þeirra verkefna sem fæddist á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Hlutverk formennskulandsins er ávallt að leggja línur um hvaða verkefnum skuli gert hátt undir höfði í samstarfinu og ákvað Ísland að efna til Norrænnar velferðarvaktar. Var þar byggt á grunni reynslunnar af  íslensku velferðarvaktinni sem sett var á laggirnar í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Verkefni Norrænu velferðarvaktarinnar var þrískipt og fól einn verkþáttanna í sér undirbúning að því að koma á fót norrænum velferðarvísum, sambærilegum við íslensku félagsvísana sem velferðarvaktin lét vinna og Hagstofan uppfærir reglulega og birtir samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið. Stofnuð var norræn verkefnastjórn um gerð vísanna. Hún hefur nú lokið störfum sem fólust í því að ákveða hvaða vísar skyldu valdir, líkt og fjallað er um í meðfylgjandi skýrslu; A Nordic Welfare Indicator System. Einnig var kynnt vefgerð sem sýnir notkun vísanna og hvernig unnt sé að lesa úr þeim upplýsingar og gera samanburð milli landa á þeim þáttum sem þeir mæla.

Gögnin að baki norrænu velferðarvísunum 30 verða á níu sviðum sem snúa að heilsu, menntun, atvinnu, samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs, launum og tekjum, húsnæði, félagslegum tengslum og þátttöku, öryggi og vellíðan. Áhersla verður lögð á samræmda öflun og framsetningu gagna að baki vísunum og jafnframt að gögnin verði uppfærð reglulega og tímanlega þannig að þeir gefi sem raunsannasta mynd af aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma.

Búið er að færa inn á vefsvæði upplýsingar um sjö af 30 vísum þar sem má sjá hvernig gögnin birtast og hvernig hægt er að brjóta niður upplýsingar eftir margvíslegum bakgrunnsbreytum. Birting upplýsinganna er enn í þróun en stefnt er að því að til framtíðar verði þeir birtir á vef Norrænu ráðherranefndarinnar og uppfærðir með reglubundnum hætti.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum