Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2016 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fagnar niðurstöðu ESA

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fagnar niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í dag en stofnunin telur að íslenskum yfirvöldum hafi verið heimilt að setja lög um eign á aflandskrónum og að þau hafi verið í samræmi við EES-samninginn.

„Þessi niðurstaða er afdráttarlaus staðfesting á því að íslensk stjórnvöld stóðu rétt að málum við afléttingu fjármagnshafta. Hún er viðkenning á því að við vorum í fullum rétti til að grípa til aðgerða til að tryggja stöðugleika,“ segir Lilja. „Niðurstaðan kemur ekki á óvart, enda gaf ESA síðsumars sterklega til kynna að málatilbúnaður þeirra sem kvörtuðu til stofnunarinnar væri ekki á rökum reist og nú hefur það verið staðfest."

Í júní á þessu ári bárust ESA tvær kvartanir vegna lagasetningar um eign á aflandskrónum. Kvartanirnar byggðust á því að rök íslenskra stjórnvalda og tilvísun í verndarsjónarmið eigi sér ekki stoð miðað við núverandi efnahagsástand á Íslandi. ESA komst að þeirri niðurstöðu í dag að þrátt fyrir að staða efnahagsmála á Íslandi sé góð um þessar mundir, sé engu að síður hætta á að afnám fjármagnshafta ógni stöðugleika og leiði til greiðslujafnaðarvanda hér á landi.

Stofnunin telur því lagasetningu stjórnvalda hafa fallið innan þess svigrúms sem þau höfðu í málinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum