Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íslensk sendinefnd til Beirúts vegna móttöku flóttafólks

Fyrir utan höfðustöðvar Flóttamannastofnunar SÞ í Beirút
Fyrir utan höfðustöðvar Flóttamannastofnunar SÞ í Beirút

Íslensk sendinefnd fór í síðustu viku til Beirút í Líbanon til þess að halda námskeið um íslenskt samfélag, í samstarfi við IOM, Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, fyrir sýrlenskt flóttafólk sem er nú staðsett í Líbanon. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði óskað eftir því að íslensk stjórnvöld tækju á móti umræddum einstaklingum.

Fólkið sótti tveggja daga námskeið þar sem fjallað var meðal annars um íslenskt samfélag almennt, réttindi, skyldur og jafnrétti. Þá var einnig fjallað um þau sveitarfélög sem munu taka á móti næsta hópi flóttafólks, þ.e. Akureyri, Hveragerði, Selfoss og Reykjavík, í samstarfi við Rauða krossinn. Á námskeiðinu var einnig farið yfir stöðu flóttafólks almennt, áhrif þess að flytjast til nýrra heimkynna og reynt að svara þeim spurningum sem brunnu helst á fólki.

Þá var það einnig hlutverk nefndarinnar að meta hversu vel aðstæður hér á landi geta komið til móts við þarfir þessa fólks til þess að tryggja að hópurinn fái viðunandi þjónustu. Í þeim tilgangi var tekið viðtal við hverja fjölskyldu. Á milli 45 og 50 einstaklingum verður boðið að setjast að hér á landi.

Flóttamannanefnd mun funda með sendinefndinni í þessari viku þar sem nefndin gerir grein fyrir ferð sinni til Beirút og upplýsir um hvaða einstaklingar hafi lýst yfir vilja til þess að flytjast til Íslands. Í framhaldinu verða lagðar fram tillögur um hvaða fjölskyldum skuli boðin alþjóðleg vernd á Íslandi. Flóttamannanefnd mun síðan senda tillögur sínar til félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra.

Í sendinefndinni voru fulltrúi velferðarráðuneytisins, fulltrúi Útlendingastofnunar, og fulltrúi Rauða krossins. Í máli þeirra kom fram að fólkið hafi verið vel undirbúið fyrir námskeiðið og hafi reynt að afla sér þekkingar um land og þjóð. Ljóst er að um berskjaldaðan hóp er að ræða þar sem lítið má út af bera til þess að heilsu og öryggi fólksins sé stefnt í hættu. Í hópnum er fjöldi barna sem þrá að hefja skólagöngu á ný.

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa staðið yfir í fimm ár og enn eru engar vísbendingar um að friður náist milli stríðandi fylkinga á næstunni. Átökin hafa valdið gífurlegum fólksflótta, bæði innan lands sem utan, og er nú meira en ein milljón sýrlenskra flóttamanna skráð af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eingöngu í Líbanon, en hætt var að taka við skráningu flóttafólks í Líbanon á síðasta ári. Líbanskt samfélag er löngu komið að þrotum og hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að herða kröfur sem gerðar eru til einstaklinga sem vilja dveljast og starfa löglega í landinu. Kostnaður er bæði mikill og torsótt að fá viðunandi leyfi sem veldur því að æ fleiri einstaklingar neyðast til þess að dveljast ólöglega í landinu sem eykur hættuna á hvers konar misnotkun. Þess ber að geta að eftir fimm ára átök er sparifé flestra uppurið. Skólaganga sýrlenskra barna er takmörkuð svo að nú er að vaxa upp kynslóð sem hefur ekki hlotið formlegt nám í fimm ár og því verður erfiðara og erfiðara að taka þráðinn upp á ný. Sýrlensk flóttafólk í Líbanon er einstaklega berskjaldaður hópur.

luti af hópnum sem tók þátt í námskeiðinu ásamt sendinefndinni

Hluti af hópnum sem tók þátt í námskeiðinu ásamt sendinefndinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum