Hoppa yfir valmynd
6. desember 2016 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Niðurstöður PISA könnunar 2015

Niðurstöður benda til þess að frammistaða íslenskra nemenda sé lakari en árið 2012 þegar rannsóknin var gerð síðast.

PISA-2015
PISA-2015

Niðurstöður úr PISA könnunni árið 2015 liggja nú fyrir. Að þessu sinni var lögð áhersla á náttúrufræðilæsi og voru tveir þriðju hlutar prófsins á því sviði. Einnig var prófað í lesskilningi og stærðfræðilæsi. Í PISA er ekki einungis metið hvort nemendur geti rifjað upp þekkingu úr skólanum heldur hvort þeir geti nýtt þekkinguna við nýjar aðstæður. Könnunin leggur áherslu á nýtingu þekkingar, skilning á hugtökum og getu til þess að beita þekkingunni við mismunandi aðstæður.

Niðurstöður benda til þess að frammistaða íslenskra nemenda sé lakari en árið 2012 þegar rannsóknin var gerð síðast. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt.

Þróunin hér á landi er mikið áhyggjuefni því á öllum þeim sviðum sem mæld eru hefur árangur íslenskra nemenda dalað mikið frá því að fyrstu mælingar komu fram. Stjórnvöld telja því að í ljósi þeirra niðurstaðna, sem nú liggja fyrir, sé nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða. Í skýrslu Menntamálastofnunar um PISA 2015 eru tillögur um aðgerðir sem mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar beiti sér fyrir. Áhersla er lögð á að ríkið styðji frekar við umbótastarf á landsvísu, m.a. með menntun ráðgjafa og gerð vefnámskeiða er tengjast umbótaaðgerðum. Lagt er til að sett verði skýrari viðmið um árangur í aðalnámskrá og unnið verði staðlað stöðumat í stærðfræði og náttúrufræði sem kennurum standi til boða. Loks er lagt til að ríkið beiti sér fyrir endurskoðun á menntun og starfsþróun kennara. Að auki verði athugað hvað hægt sé að læra af reynslu annarra landa, svo sem nágranna okkar á Norðurlöndum, þar sem gripið var til markvissra aðgerða og vísbendingar eru um að takist hafi að snúa vörn í sókn. Einnig verður athugað hvaða niðurstöður megi draga af jákvæðri reynslu hér á landi um aðgerðir til að bæta lestrarkunnáttu barna og þær nýttar einnig á öðrum sviðum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun ásamt Menntamálastofnun boða á næstunni til víðtæks samstarfs og samráðs um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðum PISA 2015.

Að mati Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra er ástæða til að bregðast við niðurstöðum PISA könnunarinnar af fullum þunga.

„Það er ljóst að það er ekki til nein einföld og fljótvirk lausn til að bæta árangur nemenda en við getum ekki sætt okkur við þessar niðurstöður og ætlum okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta árangurinn. Að mínu mati er farsælast að við setjum fá en metnaðarfull markmið um umbætur í menntamálunum, sem víðtæk samstaða næst um og sem við vinnum markvisst að til langframa. Við höfum þegar hafið átak í lestrarmálum enda er lestrarkunnátta grundvöllur alls náms. Næsta skref er að ákveða forgangsröðun og aðgerðir í náttúrufræði og stærðfræði og beina kröftum okkar að þeim. Samhliða því verðum við að ná samstöðu ríkis og sveitarfélaga um að efla faglegan stuðning við skóla, hafa langtíma stefnumótun að leiðarljósi og gefa umbótaaðgerðum þann tíma sem þær þurfa.

Þrátt fyrir þessar slæmu niðurstöður megum við ekki missa sjónir á að PISA könnunin er aðeins einn af mörgum mælikvörðum á skólakerfið. Hann mælir ekki frammistöðu á öllum sviðum og má þar nefna sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti. Engu að síður gefur PISA könnunin mikilvægar upplýsingar sem við getum ekki litið framhjá og tökum því af fullri alvöru. Að mínu mati er afar margt vel gert í skólunum og kemur meðal annars í ljós í frammistöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna, frumkvöðlastarfi og góðum árangri á fjölmörgum sviðum“.

UM PISA RANNSÓKNINA

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. Rannsóknin er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi og sem gefur áreiðanlegar og sambærilegar upplýsingar um þróun yfir tíma. PISA kannanir eru gerðar á þriggja ára fresti og gefa vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms. Þetta er í sjötta sinn sem niðurstöður PISA eru birtar.

PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment á vegum OECD. Alls taka yfir 70 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD. Ríki sem hafa tekið þátt í PISA öll árin (2000, 2003, 2006, 2009, 2012 og 2015) eru samtals 30 talsins, þar af 24 í OECD og 6 utan þess.
Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Upplýsingar og skýrslur um PISA rannsóknina árið 2015 á vef Menntamálastofnunar.

Fróðleikur um PISA á vef Menntamálastofnunar

Bráðabirgðaskýrsla Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA 2015

Vefur OECD um PISA 2015

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira