Hoppa yfir valmynd
7. desember 2016 Utanríkisráðuneytið

Atlantshafsbandalagið áfram í lykilhlutverki

NATO fundur í Brussel - mynd
Aukin samvinna Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins, þróun öryggismála í Evrópu og aðgerðir til að stuðla að friði og stöðugleika voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra ríkja Atltantshafsbandalagsins sem haldinn var í Brussel í gær og dag. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir hönd Íslands. 

Ráðherrarnir funduðu með starfssystkinum sínum frá Finnlandi og Svíþjóð, ásamt utanríkismálastjóra ESB, um aukna samvinnu við Evrópusambandið um netöryggismál, öryggismál á hafi og aðgerðir til að koma á stöðugleika og friði. Í kjölfarið var gefin út samstarfsyfirlýsing og aðgerðaráætlun vegna aukins samstarfs við ESB. Þá var fundað um þróun mála á Balkanskaga og stuðning við ríki á austur- og suðurjaðri bandalagsins, ekki síst í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Þá voru samskiptin við Rússland rædd og mikilvægi þess að draga úr spennu.

Lilja Alfreðsdóttir segir mikla samstöðu hafa einkennt fundinn. „Pólitískt mikilvægi Atlantshafsbandalagsins hefur síst minnkað. Aðildarríkin hafa bæði þétt og víkkað sitt samstarf á sama tíma og nokkur óvissa ríkir innan Evrópusambandsins. Atlantshafsbandalagið rammar inn samstarf Evrópuþjóðanna og Bandaríkjanna og brúin yfir Atlantshafið er sterk," segir Lilja.  

 

Fundurinn var sá síðasti áður en nýr forseti Bandaríkjanna tekur við embætti og síðasti fundur John Kerry sem utanríkisráðherra. Í kveðjuræðu sinni ræddi Kerry um mikilvægi samstarfsins og styrk Atlantshafsbandalagsins.  Lilja tekur í sama streng. „Atlantshafsbandalagið er sterkt og hefur í gegnum tíðina staðið af sér pólitíska sviptivinda. Aðildarríkin 28 eru ólík um margt, en þau standa sameinuð gegn utanaðkomandi öryggisógnum og styðja varnir hvers annars. Öryggissamvinnan á sér djúpar rætur í stjórnkerfum aðildarlandanna og fyrirséðar breytingar í hópi leiðtoga áhrifamikilla aðildarþjóða munu ekki breyta eðli NATO samstarfsins," segir hún. 

Í morgun var fundað með utanríkisráðherra Úkraínu þar sem farið var yfir stöðu mála í Úkraínu, umbótastarf þarlendra stjórnvalda og áframhaldandi stuðning Atlantshafsbandalagsins. Að endingu funduðu þátttökuríki í stuðningsaðgerðum alþjóðaliðsins í Afganistan með utanríkisráðherra landsins og fulltrúum Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir að stuðningur alþjóðaliðsins haldi áfram út næsta ár.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum