Hoppa yfir valmynd
7. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur starfshóps um fyrirkomulag orlofsmála fatlaðs fólks

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Starfshópur sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði til að fjalla um fyrirkomulag orlofsmála fatlaðs fólks hefur skilað tillögum sínum til ráðherra.

Ráðherra skipaði starfshópinn 8. febrúar 2016 og fól honum að kanna möguleika á að setja umgjörð eða sérstakar reglur um framkvæmd orlofsmála fatlaðs fólks og þá þjónustu sem veitt er fötluðu fólki í dag í tengslum við sumarfrí þess og koma með tillögur að framtíðarfyrirkomulagi. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Átaks, félags fólks með þroskahömlun, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands.

Hópurinn vann meðal annars leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin um framkvæmd orlofsmála fatlaðs fólks miðað við óbreytta stöðu mála og voru þær sendar sveitarstjórum og félagsmálastjórum í júní sl. Þá voru öllum félagsmálastjórum á landinu sendar spurningar þar sem leitað var eftir upplýsingum um starfandi orlofsstaði og í kjölfar þess tekinn saman listi yfir þá. Leggur starfshópurinn til að svæðisbundnir réttindagæslumenn haldi utan um og uppfæri listann árlega eftir bestu þekkingu, þar til ákveðið hefur verið hvernig utanumhaldi verði hagað til framtíðar.

Eins og fram kemur í inngangi að tillögum starfhópsins hefur hann í starfi sínu lagt áherslu á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga sem kjósa að fara í einhvers konar orlofsdvöl. Einnig að stuðla beri að fjölbreytni á öllum sviðum og að hver einstaklingur fái að ráða hvernig hann kjósi að verja sínum orlofstíma.

Ein af niðurstöðum starfshópsins er að tryggja þurfi með lagasetningu að starfsemi sem hefur þann megintilgang að veita fötluðu fólki þjónustu þurfi að hafa starfsleyfi til þess að reka slíka þjónustu og að hún falli undir viðkomandi lög, meðal annars um eftirlit með þjónustunni. Einnig þurfi að tryggja að reglulegar gæðaúttektir fari fram þar sem fatlað fólk á oft erfiðara með að átta sig á þeim kröfum sem gerðar eru til aðila sem selja ferðaþjónustu eða hefur takmarkaða möguleika á að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Á vettvangi starfshópsins var rætt um fjármögnun orlofsþjónustu við fatlað fólk og bendir hann á að taka þurfi tillit til þess að oft sé dýrara fyrir fatlað fólk að nýta sér orlofsúrræði vegna starfsmannakostnaðar ef viðkomandi þarf stuðning með sér og vegna þess að fatlað fólk hefur oft ekki sömu réttindi og fólk á vinnumarkaði, til dæmis í orlofssjóðum stéttarfélaga.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikilvægt að tillögur hópsins liggi nú fyrir og að þær verði hluti af endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks sem nú stendur yfir. Hún vonist til að þingmenn nái samstöðu um að koma þeim til leiðar við endurskoðun laganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum