Hoppa yfir valmynd
16. desember 2016 Matvælaráðuneytið

17. fundur sameiginlegrar fiskveiðinefndar Íslands og Rússlands

Sautjándi fundur fiskveiðinefnda Íslands og Rússlands um samstarf á sviði sjávarútvegsmála var haldinn í Reykjavík dagana 15.-16. desember

Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd Smugusamningsins sem er frá 15. maí 1999. Þannig var fjallað um samstarf á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna og jafnframt um veiðistjórnun sameiginlegra stofna á Norður-Atlantshafi, þ.m.t. úthafskarfa og norsk-íslenska síld.

Ísland lagði áherslu á mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Veiðistjórnun karfastofnanna á Reykjaneshrygg verður að byggja á bestu vísindalegu þekkingu og þeirri ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem fyrir liggur.

Samningar um veiðar íslenskra skipa árið 2017 náðust og  koma alls 8.121 tonn af þorski í rússneskri lögsögu í hlut Íslands en þar af eru 5.075 tonn sem úrhlutað er beint. Meðaflaheimild í ýsu nemur samtals 711 tonnum. Meðaflaheimild í öðrum tegundum er líkt og áður 30% af aflaheimildum í þorski að frádregnum 711 tonnum af ýsu.

Eftir er að semja um verð og meðaflaheimildir  vegna 3.046 tonna sem íslenskar útgerðir hafa rétt til að kaupa af Rússum. Rússar lýstu jafnframt yfir vilja til að endurskoða forsendur samningsins.

Einnig ræddu ríkin um frekara samstarf á sviði sjávarútvegsmála á fjölþjóðlegum vettvangi þar sem áherslur og hagsmunir ríkjanna tveggja fara iðulega saman. Að loknum fundinum lýstu báðir aðilar yfir ánægju með viðræðurnar og mikilvægi þeirra í tvíhliða samskiptum ríkjanna.

Formaður rússnesku samninganefndarinnar var Konstantin.V. Drevetnyak forstjóri PINRO og þeirra íslensku var Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum