Hoppa yfir valmynd
20. desember 2016 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ísland í öðru sæti á heimslista yfir upplýsingatækni

Ísland mælist í öðru sæti ríkja á lista yfir stöðu ríkja í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Fjölmargir þættir á sviði fjarskipta eru mældir svo sem aðgengi að gögnum og gæði þeirra, fjöldi fastlínunotenda og farsímanotenda, tölvueign, aðgengi að netinu, bandvídd og þróun verðlags í fjarskiptum.

Alþjóðafjarskiptasambandið, International Telecommunications Union, ITC, hefur frá árinu 2009 staðið fyrir mælingum á stöðu ríkja á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Teknar eru saman upplýsingar um 175 ríki, hvaða ríki standa sig best og hvaða ríki hafa bætt sig mest miðað við fyrri ár. Með slíkum upplýsingum er unnt að meta hver þróunin hefur verið og hvert hún stefnir.

Suður Kórea mælist í fyrsta sæti í annað sinn í þessum mælingum með einkunnina 8,84. Ísland er í öðru sæti með 8,83 og þokast upp og var síðast með 8,66. Danmörk er í þriðja sæti með 8,74 og síðan koma Sviss, Bretland, Hong Kong, Svíþjóð, Holland, Noregur og Japan.

Í fyrstu 10 sætunum eru því þrjú ríki í Asíu og sjö Evrópuríki. Segir í skýrslu ITC að staða þessara ríkja endurspegli mikla fjárfestingu á sviði fjarskipta og að markaðurinn sé frjáls og samkeppnishæfur. Þar ríki almenn velmegun og íbúar færi sér upplýsingatæknina í nyt. Þá kemur fram að flest ríki leggi mikla áherslu á að byggja upp fjarskipti og netvæðingu í því skyni að þegnar geti nýtt sér kosti upplýsingatækninnar og netsins.

Vekja má athygli á að Póst- og fjarskiptastofnun safnar reglulega upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækin hér á landi. Eru unnar tölfræðiskýrslur um helstu stærðir og fyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Nýlega hefur stofnunin birt skýrslu um stöðuna á fyrri hluta þessa árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira