Hoppa yfir valmynd
27. desember 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráð um endurskoðun á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur í samráði við Menntamálastofnun unnið að endurskoðun á reglugerð nr. 435/2008 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla.

Markmiðið með endurskoðun reglugerðarinnar er að laga hana að innleiðingu rafrænna könnunarprófa og annarra breytinga á prófunum í samræmi við ákvæði laga og aðalnámskrár grunnskóla.

Í lögum um grunnskóla frá 2008 er í greinargerð fjallað um þá framtíðarsýn að samræmd könnunarpróf í grunnskólum verði rafræn og að þau verði einstaklingsbundin og aðlöguð. Fyrstu skref hafa verið stigin í þá átt með rafrænum samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk grunnskóla haustið 2016 en allir nemendur tóku sömu prófin. Endurskoðuð reglugerð tekur til rafrænna einstaklingsmiðaðra prófa sem fyrirhugað er að innleiða á næstu þremur árum í grunnskólum og fyrsta skrefið í þá átt verður stigið í vor með könnunarprófum í 9. bekk sem einnig verða samtímis lögð fyrir 10. bekk. Einnig hefur verið farið yfir reglugerðina í ljósi lagabreytinga sem gerðar voru árið 2015 í tengslum við setningu laga um Menntamálastofnun nr. 91/2015 þegar ákveðinn sveigjanleiki var lögfestur í útfærslu samræmdra könnunarprófa á unglingastigi. Loks hefur reglugerðin verið endurskoðuð í ljósi undanþáguheimilda í eldra kerfi, persónuverndarmála og breytinga á aðalnámskrá, einkum vegna matsviðmiða og hæfnieinkunnar.

Tillagan að endurskoðaðri reglugerð fer nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegra draga að endurskoðaðri reglugerð, sem lögð verður fyrir ráðherra.

Frestur til að gera athugasemdir eða senda inn umsagnir um drögin er til og með 15. janúar 2015. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina reglugerðarinnar, þegar það á við. Umsagnir og/eða athugasemdir sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] merkt í efnislínu: Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum