Hoppa yfir valmynd
29. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun um að loka hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu Embættis landlæknis, að loka hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi á Suðurlandi. Vinna er hafin við að finna íbúum heimilisins viðeigandi úrræði en samkvæmt áætlun verður starfsemi á Kumbaravogi að fullu hætt 31. mars 2017.

Embætti landlæknis hefur ítrekaðar gert athugasemdir við forstöðumann Kumbaravogs um aðbúnað íbúa á heimilinu og krafist úrbóta meðal annars vegna slælegs ástands húsnæðisins og ófullnægjandi mönnunar. Ekki hefur verið brugðist við ábendingum Embættis landlæknis með viðunandi hætti þegar eftir því hefur verið gengið.

Embætti landlæknis telur að rekstur hjúkrunarheimilisins Kumbaravogs uppfylli ekki lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til reksturs heilbrigðisþjónustu. Telur embættið fullreynt að knýja fram úrbætur og að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. Skrifleg tillaga embættisins til heilbrigðisráðherra, dags. 5.desember 2016, um að stöðva rekstur hjúkrunarheimilisins, með vísan til 25. gr. laga um heilbrigðisþjónustu og 2. mgr. 7. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, er reist á þessum grunni.

Velferðarráðuneytið gerði forstöðumanni Kumbaravogs grein fyrir áformum um lokun hjúkrunarheimilisins samkvæmt tillögu Embættis landlæknis, með bréfi 12. desember 2016 og gaf kost á andmælum. Frá sama tíma ákvað ráðuneytið að stöðva innritun nýrra íbúa á hjúkrunarheimilið. Af hálfu rekstraraðila Kumbaravogs hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem benda til þess að vænta megi nauðsynlegra úrbóta á heimilinu.

Áhersla á hagsmuni og öryggi íbúanna

Íbúar á Kumbaravogi eru 29. Í samráði við íbúana og aðstandendur þeirra verður nú unnið að því að finna þeim viðunandi búsetuúrræði með þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins. Reynt verður að mæta óskum íbúanna í því sambandi eins og kostur er. Áætlað er að síðustu íbúar Kumbaravogs flytji þaðan eigi síðar en 31. mars næstkomandi. Til að gæta hagsmuna þeirra meðan fyrirhugaðar breytingar ganga yfir verður starfsemi hjúkrunarheimilisins tryggð allt til rekstrarloka. Ráðuneytið hefur því tekið ákvörðun um að daggjöld verða greidd fyrir 28 hjúkrunarrými og eitt dvalarrými út mars næstkomandi óháð nýtingu rýmanna.

Velferðarráðuneytið væntir góðs samstarfs við stjórnendur Kumbaravogs við lokun heimilisins þannig að undirbúningur og framkvæmd þessara breytinga taki í öllum atriðum mið af velferð og öryggi íbúanna og valdi hvorki þeim né aðstandendum óþægindum eða raski á högum þeirra umfram það sem óhjákvæmilegt er við aðstæður sem þessar.

Nýtt hjúkrunarheimili byggt í Árborg

Heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar undirrituðu í byrjun september sl. samning um byggingu 50 rýma hjúkrunarheimilis sem rísa mun á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Samkvæmt áætlun velferðarráðuneytisins er miðað við að 35 þessara rýma leysi af hólmi eldri hjúkrunarrými en 15 þeirra mæti aukinni þörf. Í þessari áætlun ráðuneytisins (sjá svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um heimilismenn á hjúkrunarheimilum) var meðal annars reiknað með því að rekstri hjúkrunarheimilisins á Kumbaravogi yrði hætt á næstu misserum, enda virtist þá orðið ljóst að rekstraraðilarnir teldu sér ekki fært að reka heimilið í samræmi við kröfur þar að lútandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum