Hoppa yfir valmynd
30. desember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Samkomulagvið ÖSE um þjálfun lögreglu og ákærenda vegna hatursglæpa

Íslenskir lögreglumenn og ákærendur verða þjálfaðir vegna viðbragða við hatursglæpum. - mynd

Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ODIHR) og íslensk stjórnvöld hafa gert með sér samkomulag um þjálfun lögreglumanna og ákærenda hér á landi vegna hatursglæpa.

Forstjóri ODIHR, Michael Georg Link, segir í fréttatilkynningu að hatursglæpir kalli á viðbrögð alls réttarvörslukerfisins og mikilvægt að fyrir hendi sé þekking til að bregðast við þeim. Hann lýkur lofsorði á íslensk stjórnvöld fyrir að ganga hér á undan með góðu fordæmi.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, segir að íslensk stjórnvöld séu ákveðin í því að styrkja viðbrögð við hatursglæpum til að standa vörð um mannréttindi í sífellt fjölbreyttara þjóðfélagi. Það sé því mikilvægt skref að þjálfa lögreglumenn og ákærendur í að rannsaka hatursglæpi og að sækja til saka þá sem brjóta af sér. Í þessu verkefni felist skýr skilaboð um að hatursglæpir verði ekki liðnir í íslensku þjóðfélagi.

Verði fastur liður í símenntun

Ásamt innanríkisráðherra, skrifa ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri undir samkomulagið. Í því felst að ODIHR tekur að að halda hér á landi sérsniðin námskeið á næsta ári fyrir leiðbeinendur úr hópi íslenska lögreglumanna og ákærenda. Þeim sem fá þessa þjálfun er síðan ætlað að fræða aðra sem sinna löggæslu og fara með ákæruvald. Jafnframt er stefnt að því fræðslan verði fastur liður í menntun og símenntun lögreglumanna og ákærenda. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú þegar að þróunarverkefni um hatursglæpi.

Hatursglæpir hafa verið skilgreindir sem brot á almennum hegningarlögum þar sem ásetningur brotsins ræðst að öllu leyti eða hluta til af fordómum gerandans gagnvart brotaþolanum vegna þjóðernis, trúarbragða, kynþáttar, litarháttar, kynhneigðar eða kynvitundar.

Skipaður hefur verið samráðshópur sem m.a. á að fylgjast með innleiðingu námskeiðanna á vegum ODIHR, og veita ráðgjöf um hvernig laga megi námsefni um hatursglæpi að íslenskum aðstæðum. Í hópnum eru fulltrúar þeirra sem skrifa undir samkomulagið auk fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fulltrúar ODIHR komu hingað til lands 7.-9. nóvember sl. til að undirbúa samkomulagið. Þeir hittu þá fulltrúa íslenskra stjórnvalda og hlutaðeigandi stofnana auk þess að heimsækja Héraðsdóm Reykjavíkur. Í lok heimsóknarinnar var haldin vinnustofa um hatursglæpi með þátttöku lögreglu, ákærenda, dómara og embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira