Hoppa yfir valmynd
9. maí 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um tilraunaverkefni á sviði fjargeðheilbrigðisþjónustu

Undirritun samnings um verkefnið Mín líðan - mynd

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita styrki til tveggja tilraunaverkefna á sviði fjargeðheilbrigðisþjónustu. Markmið beggja verkefnanna er að auka aðgengi fólks að gagnreyndri sálfræðimeðferð við algengustu geðröskunum óháð því hvar á landinu þeir búa.

„Það er ótvírætt að mikil tækifæri eru fólgin í því að veita heilbrigðisþjónustu með þeirri tækni sem hér um ræðir og þetta er því mjög stórt mál til framtíðar. Aukin áhersla á geðheilbrigði og efling þjónustu á því sviði er einnig afar mikilvægt. Því er afar ánægjulegt að með þessum verkefnum sameinum við þetta tvennt, þróun fjarheilbrigðisþjónustu og leiðir til að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra við undirritun samninga um verkefnin tvö í velferðarráðuneytinu í dag.

Aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu er mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. Erfiðlega hefur gengið að manna stöður sálfræðinga í sumum heilbrigðisumdæmum og ljóst er að samgöngur og kostnaður vegna ferðalaga og vinnutaps er hindrun fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og þurfa að sækja sér þjónustuna um langan veg. „Við þurfum að þróa leiðir til að mæta þessum aðstæðum“ sagði ráðherra einnig við undirritun samninga um verkefnin tvö, en hvort þeirra hlýtur einnar milljónar króna styrk.

Tölum saman (tolumsaman.is) er verkefni Sigurbjargar Ludvigsdóttur, sálfræðings og eins eigenda Kvíðameðferðarstöðvarinnar og Dags Bjarnasonar geðlæknis. Þessi nýja þjónusta nýtir íslenskan hugbúnað til þess að veita gagnreynda sálfræðimeðferð við algengustu geðröskunum á öruggan hátt í gegnum netið. Sálfræðimeðferðin er veitt í gegnum fjarfundabúnað þannig að sjúklingurinn sér og er í beinum samskiptum við sálfræðinginn sinn í rauntíma. Óski fólk eftir staðfundi, þ.e. að hitta sálfræðinginn, þá er það einnig mögulegt. Þessi þjónusta telst til fyrsta og annars stigs geðheilbrigðisþjónustu.

Mín líðan (www.minlidan.is)er verkefni sem felst í hugrænni atferlismeðferð á netinu ætluð ungu fólki sem upplifir væg til miðlungs kvíða- eða depurðareinkenni. Verkefnið er á forvarnar- og frumstigi geðheilbrigðisþjónustu þar sem lögð er áhersla á fræðslu og sjálfshjálparefni á vefsíðu auk þess  sem sjúklingarnir fá einstaklingsmiðaða endurgjöf á verkefni og gagnvirkar æfingar frá sálfræðingi. Meðferðarúrræði þetta gæti mögulega nýst með öðrum úrræðum sem eru í þróun s.s. heilsuvef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis. Að verkefninu standa Tanja D. Björnsdóttir sálfræðingur og Sveinn Ó. Hafliðasonar hagfræðingur.

Tilraunaverkefnin eru til eins árs og verður þá lagt mat á árangurinn, framkvæmdina, kosti og galla og hvað mætti betur fara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum