Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sviðsljósinu beint að svarta hagkerfinu og skattsvikum: Skýrslur tveggja starfshópa

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra ásamt Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknastjóra, Snorra Olsen, tollstjóra og Skúla Eggerti Þórðarsyni, ríkisskattstjóra. Fremst á myndinni er Þorkell Sigurlaugsson, formaður annars starfshópsins. - myndFjármála- og efnahagsráðuneytið

Peningaþvætti, falskir reikningar og milliverðlagning meðal margra umfjöllunarefna í tveimur nýjum skýrslum um skattundanskot

Í kjölfar upplýsinga úr Panamaskjölunum jókst meðvitund um að undanskotum væri beitt með markvissum hætti til að komast undan skattskyldu. Í janúar síðastliðnum birti fjármálaráðherra skýrslu sem unnin var að frumkvæði forvera hans um umfang íslenskra fjármuna í skattaskjólum. Ráðherra ákvað strax að styrkja yrði aðgerðir gegn skattsvikum og skattaundanskotum. Sem lið í þeim aðgerðum skipaði hann tvo starfshópa um aðgerðir; annan um milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum og hinn um skattundanskot og skattsvik. Auk þess má geta þess að ráðherra undirritaði nýlega fyrir hönd Íslands alþjóðlegan samning sem koma á í veg fyrir misnotkun á tvísköttunarsamningum í því skyni að komast undan eðlilegri skattlagningu. 

„Eitt af mínum fyrstu verkum þegar ég kom í ráðuneytið var að heimsækja þær stofnanir sem sinna álagningu og innheimtu skatta og rannsóknum á skattalagabrotum. Í kjölfar þeirra heimsókna ákvað ég að skipa tvo starfshópa, annan sem einbeitti sér að svarta hagkerfinu og aðgerðum til að draga það í dagsljósið, og hinn til að fjalla um notkun falskra reikninga til að svíkja undan skatti. Starfshóparnir hafa nú skilað tveimur mjög áhugaverðum skýrslum með tillögum og ábendingum um aðgerðir sem munu reynast sterkt vopn í baráttunni gegn skattsvikum. Ráðuneytið og stofnanir þess munu í framhaldinu hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunum,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Við lýsum bókstaflega yfir stríði gegn skattsvikum. Á sama tíma munum við taka höndum saman við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Við erum því að hefja stórsókn gegn svikastarfsemi á öllum sviðum,“ segir hann ennfremur.

Virkt milliverðlagningareftirlit að norrænni fyrirmynd

Árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna óeðlilegrar milliverðlagningar tengdra lögaðila getur verið á bilinu 1 til 6 milljarðar króna. Mikilvægt er að átak verði gert í milliverðlagningareftirliti hér á landi með árangur og ávinning nágrannaríkja okkar að leiðarljósi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps um milliverðlagningu og faktúrufölsun í utanríkisviðskiptum. Starfshópnum var ætlað að skoða mögulegar umbætur á lagaumgjörð og regluverki milliríkjaviðskipta, með hliðsjón af reynslu annarra þjóða.

Í starfshópnum áttu sæti Anna Borgþórsdóttir Olsen, formaður, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Andri Egilsson, Seðlabanka Íslands, Auður Ólína Svavarsdóttir, Hagstofu Íslands, Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir, tollstjóra, Margrét Ágústa Sigurðardóttir, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigurður H. Ingimarsson, skattrannsóknarstjóra, Sigurður Jensson, ríkisskattstjóra og Íris Hannah Atladóttir, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem starfsmaður hópsins.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru meðal annars eftirfarandi:

 • Auka þarf eftirlit með óeðlilegri milliverðlagningu tengdra lögaðila með öllum tiltækum ráðum og nýta reynslu, þekkingu og vilja annarra ríkja, t.a.m. Danmerkur og Noregs, til að aðstoða íslensk stjórnvöld við að hefja átak í milliverðlagningareftirliti.
 • Tryggja þarf að virkt eftirlit sé með skjölunarskyldu stærri fyrirtækja; því hvernig fyrirtækjasamstæðum er gert að skila ýmsum skýrslum um afkomu og innri viðskipti.
 • Beita á sektum ef skjölunargögnum er ekki skilað innan tilskilins frests.
 • Gera þarf lagabreytingu þannig að skjölunarskyldan nái jafnframt til innlendra aðila. Slíkt væri m.a. gert til tryggja samræmi skv. EES-samningnum.
 • Tryggja þarf aðgang að alþjóðlegum gagnagrunnum til að auðvelda samanburðargreiningar á verðlagningu tengdra og ótengdra aðila.
 • Tryggja þarf ótvíræða heimild til að gera samkomulag um aðferð við verðlagningu (APA) á milli skattyfirvalda og skattaðila.
 • Beita ætti álagi og öðrum viðurlögum af fullum þunga á vanframtalda tekjuskattsstofna vegna rangrar verðlagningar milli tengdra lögaðila.
 • Auka á eftirlit með CFC-löggjöfinni um skattgreiðslur af eignum á lágskattasvæðum.

Þá eru ábendingar um að auka megi samstarf bæði innanlands og utan:

 • Efla þarf samstarf á milli stofnana skatta- og tollamála á sviði milliverðlagningar, þ.m.t. faktúrufölsunar, ásamt því að lögfesta ákvæði er auðvelda upplýsingaskipti þeirra.
 • Vísa ætti málum til skattrannsóknarstjóra þegar grunur vaknar um skattalagabrot.
 • Skilgreina þarf betur hvað átt er við með raunverulegri framkvæmdastjórn í tekjuskattslögum.
 • Lögfesta þarf ákvæði um raunverulega eigendur og tryggja ennfremur að ekki sé gefin út kennitala til erlendra lögaðila nema ljóst liggi fyrir hverjir standi að baki lögaðilanum, þ.e. að raunverulegur eigandi aðilans sé þekktur.
 • Tryggja þarf skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnsflutninga milli landa frá fjármálafyrirtækjum.
 • Upplýsingar frá erlendum fjármálafyrirtækjum þurfa að vera forskráðar á skattframtöl.

 

Peningaþvætti, kennitöluflakk og skattundanskot hægt að minnka

Verkefni hópsins var að greina umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, þ.m.t. afkomu hins opinbera, ásamt því að gera tillögur um það hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Jafnframt var starfshópnum falið að skoða hvaða skorður megi mögulega reisa varðandi notkun reiðufjár, við greiðslu launa og kaup á dýrum hlutum með hliðsjón af lögum og reglum í nágrannaríkjum.
Meginefni skýrslunnar eru fjögur:

 1. Umfang skattundanskota og þróun þess undanfarin ár.
 2. Skattsvik sem rekja má til kennitöluflakks eða ólögmætra undanskota í verktakaiðnaði og leiðir til úrbóta í þeim efnum.
 3. Lög, reglur og eftirlit með peningaþvætti og hvernig unnt er að þrengja að þeim sem það stunda.
 4. Tillögur um takmörkun reiðufjár til að torvelda peningaþvætti og skattundanskot.

Ekki var ráðist í nýja sjálfstæða rannsókn á umfangi undanskota í tengslum við þessa skýrslu, en sé litið til nýlegri rannsókna má ætla að undanskot gætu verið á bilinu 3-5% af VLF. Sé miðað við að umfang skattundanskota hafi verið 4% árið 2016 þá námu þau um 100 milljörðum króna.

Mismunandi virðisaukaskattsþrep er meðal þess sem eykur hvata til undanskota. Mikilvægt er því að fækka undanþágum frá almenna þrepinu og minnka bilið á milli skattþrepanna eða sameina þau. Þá ætti að innleiða löggild og nettengd verslunarkerfi, eða kassakerfi, sem senda upplýsingar um veltu smásala beint til skattyfirvalda. Slíkt myndi auðvelda hlutverk eftirlitsaðila.
Svo virðist sem kennitöluflakk og undanskot í verktakaiðnaði fari fram með skipulagðari hætti en áður. Því er lagt til að reglur um keðjuábyrgð verði lögfestar, þannig að verktakar beri í auknum mæli ábyrgð á skilum opinberra gjalda undirverktaka. Þá er lagt til að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann sem sýnt hafa af sér grófa og óverjandi viðskiptahætti sem stjórnendur félaga og að reglur um hæfi einstaklinga til að stofna félög og fá virðisaukaskattsnúmer verði þrengdar.

Skattundanskot og peningaþvætti byggja mikið á reiðufé. Almenn reiðufjárnotkun er þó mjög lítil hér á landi í alþjóðlegum samanburði og rafræn greiðslukortaviðskipti ráðandi. Til að torvelda möguleika til skattundanskota og peningaþvættis er lagt til að reiðufjárnotkun verði takmörkuð.

Í starfshópnum sátu Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri, formaður, Ása Ögmundsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Björn Rúnar Guðmundsson, tilnefndur af Hagstofu Íslands, Elín Guðjónsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðbjörg Eva Baldursdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Helga Rún Hafliðadóttir, tilnefnd af skattrannsóknarstjóra, Jenný Stefanía Jensdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Jón Bjarni Steinsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra, Ólafur Hauksson, tilnefndur af innanríkisráðuneyti, Ragnhildur D. Þórhallsdóttir, tilnefnd af ríkisskattstjóra og Sigríður Olgeirsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra.

Skýrslur og kynningarefni:

Milliverðlagning og faktúrufölskun: Skýrsla starfshóps í júní 2017

Umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða: Skýrsla starfshóps í júní 2017

Kynningarefni starfshópa um skattundanskot og milliverðlagningu 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum