Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Matvælaráðuneytið

World Seafood ráðstefnan og ráðherrafundur

Dagana 11.-13. september fór fjölmenn alþjóðleg ráðstefna fram í Hörpu, World Seafood Congress. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og fer næst fram í Penang-fylki í Malasíu. Aðalábyrgð á skipulagningu ráðstefnunnar var á hendi MATÍS ohf. en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var meðal margra styrktaraðila hennar. Á það var lögð áhersla við skipulagningu ráðstefnunnar að tengja hana við sjávarútvegsfyrirtæki og þróun og umbreytingar í tækni- og markaðsmálum fiskiðnaðarins, en um 150 manns, alls staðar að úr heiminum, fluttu fyrirlestra og stýrðu málstofum á ráðstefnunni.

Sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar þar sem hún fjallaði um þær áskoranir sem fiskiðnaður stendur frammi fyrir við að auka verðmætasköpun og þróa nýjar lausnir í meðferð og vinnslu afla, bæði hér innanlands og erlendis. Hún vakti að auki athygli á þeirri öru þróun og tæknilegu umbreytingu sem gætir almennt innan bláa lífhagkerfisins.

Að lokinni ráðstefnunni fór sérstakur ráðherrafundur fram í Hörpu, sem haldinn var í boði ráðherra í samstarfi við utanríkisráðuneytið, MATÍS og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO). Á fundinum tóku þátt sendinefndir frá Bangladesh, Grænhöfðaeyjum, Kostaríka, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador,  Prince Edward-eyju í Kanada, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO).

Á fundinum var rætt um framgang bláa lífhagkerfisins, frá sjónarmiði hinna ólíku ríkja og stofnanna og hvernig mætti auka verðmætasköpun úr auðlindum hafsins á sjálfbæran hátt. Á fundinum fluttu erindi þau dr. Ray Hilborn prófessor í háskólanum í Washingtonfylki í Bandaríkjunum og dr. Anna Kristína Daníelsdóttir, yfirmaður rannsókna og  nýsköpunar hjá MATÍS.

 

 

  • World Seafood ráðstefnan og ráðherrafundur - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum