Hoppa yfir valmynd
10. október 2017 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Markviss vinna við stefnumótun og lagasetningu um skipan ferðamála

Yadid Levy / Norden.org - mynd

Ríkisendurskoðun hefur birt á vef sínum skýrslu til Alþingis um stjórnsýslu ferðamála. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að endurskoða þurfi lög og marka stefnu um skipan ferðamála, endurskoða þurfi skipulag verkefna innan stjórnsýslu ferðamála og skýra þurfi hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála og stöðu gagnvart eiginlegum stjórnsýslustofnunum.

Í tilefni af útgáfu skýrslunnar áréttar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftirfarandi athugasemdir:

  1. Vinna við endurskoðun laga um skipan ferðamála hefur staðið yfir síðustu mánuði. Stefnt var að því að frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi haustið 2017 en ljóst að framlagning þess frestast um hríð vegna fyrirhugaðra kosninga. Frumvarpið sem verið hefur í smíðum í ráðuneytinu byggir á frumvarpsdrögum sem birt voru til umsagnar á vef þess vorið 2017, en því er að auki ætlað að taka á fyrirkomulagi rannsókna í ferðamálum, skipan og hlutverki ferðamálaráðs o.fl. atriðum.
  2. Vinna við viðamikla stefnumótun stjórnvalda í ferðaþjónustu er hafin og búið að ákveða að skipa verkefnisstjórn undir forystu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis með aðkomu helstu ráðuneyta sem aðkomu hafa að ferðamálum. Verkefnisstjórnin mun jafnframt kalla til ráðgjafahóp með fulltrúum stofnana o.fl. aðila. Ráðgert er að tillaga til þingsályktunar um stefnu í ferðamálum 2020-2025 verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2019.
  3. Skrifstofa ferðamála tók til starfa í ráðuneytinu þann 1. mars 2017 en hlutverk hennar er að skerpa á stefnumótunarhlutverki ráðuneytisins á sviði ferðamála. Jafnframt er hafin vinna við endurskoðun á hlutverki Ferðamálastofu og m.a. miðað við að stofnunin taki við þeim verkefnum sem unnin eru á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála þegar hún verður lögð niður árið 2020.
  4. Stjórnstöð ferðamála fer ekki með stjórnsýslulegt hlutverk heldur er hún samstarfs- og þróunarvettvangur stjórnsýslunnar (ríkis og sveitarfélaga) og ferðaþjónustunnar. Henni var ætlað að mæta þörf fyrir samræmingu verkefna þvert á stjórnsýsluna og vinna að ýmsum þróunarverkefnum sem m.a. voru sett fram í Vegvísi í ferðaþjónustu. Starfsemi hennar mun nýtast vel í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er að fara af stað undir forystu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins."

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira