Hoppa yfir valmynd
23. október 2017 Innviðaráðuneytið

Heimild til flutnings á hergögnum um íslenskt yfirráðasvæði ekki veitt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu barst hinn 20. október síðastliðinn erindi frá Samgöngustofu varðandi heimild til flutnings á hergögnum um íslenskt yfirráðasvæði. Sneri erindið að beiðni erlends flugrekanda um leyfi stofnunarinnar til að flytja 16 tonn af táragasi frá Kína til Venesúela með viðkomu á Keflavíkurflugvelli fyrir áhafnahvíld. Erindið var sent ráðuneytinu til samráðs í samræmi við 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 937/2005 um flutning hergagna.

Samkvæmt reglugerðinni er meginreglan sú að flutningur hergagna er ekki heimilaður nema með sérstöku leyfi Samgöngustofu. Skal Samgöngustofa hafa samráð við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þegar ósk um flutning felur í sér mikið magn hergagna, mikla tíðni eða óvenjulegan eða sérstaklega viðkvæman flutning eða flutning inn á hættu- eða átakasvæði.

Ráðuneytið hefur tekið erindi Samgöngustofu til skoðunar og er ljóst að um mikið magn táragass er að ræða auk þess sem líta megi á Venesúela sem hættusvæði þar sem grundvallar mannréttindi eru ekki virt, m.a. í ljósi ferðaviðvarana annarra ríkja.

Því mælist ráðuneytið til þess við Samgöngustofu að umræddu erindi um flutning hergagna um íslenskt yfirráðasvæði og viðkomu á Keflavíkurflugvelli verði synjað. Jafnframt er því beint til Samgöngustofu að heimila enga slíka flutninga um íslenskt yfirráðasvæði nema að viðhöfðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum