Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2017 Forsætisráðuneytið

Samningur um birtingu Jafnlaunastaðals

Guðrún  Rögnvaldardóttir og Þorsteinn Víglundsson - myndVelferðarráðuneytið

Velferðarráðuneytið og Staðlaráð Íslands hafa gert með sér samstarfssamning sem tryggir almennan aðgang að Jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með samningnum er brugðist við áliti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í aðdraganda lagasetningar um skyldu til vottunar jafnlaunakerfa.

Með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor var kveðið á um lögfestingu skyldu til vottunar jafnlaunakerfa hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri. Meginmarkmið er að eyða kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt lögunum sem öðlast gildi 1. janúar næstkomandi skal jafnlaunavottun byggjast á staðlinum ÍST 85 en Staðlaráð Íslands fer með höfundarrétt staðalsins.

Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar, dags. 30. maí 2017, var lögð áhersla á að þar sem verið væri að lögfesta skyldu fyrirtækja og stofnana til að nota jafnlaunastaðalinn yrði að tryggja aðgengi að staðlinum en gæta jafnframt að því að höfundarréttur Staðlaráðs Íslands að staðlinum væri virtur. Var því beint til velferðarráðuneytisins, í samráði við Staðlaráð Íslands, að semja um aðgang að honum.

Samkvæmt samningnum sem Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra og Guðrún Rögnvaldardóttir framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands undirrituðu í dag mun Staðlaráð Íslands setja upp kerfi á sérstakri vefsíðu sem tryggir lesaðgang að staðlinum ÍST 85 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar, notendum að kostnaðarlausu.

Samningurinn tryggir með þessu móti notendum aðgang að staðlinum um leið og höfundarréttur Staðlaráðs er virtur en Staðlaráði Íslands er jafnframt bætt áætlað tekjutap af sölu staðalsins sem leiðir af birtingu hans.

Samningurinn gildir til fjögurra ára með möguleika á framlengingu í allt að fjögur ár til viðbótar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum