Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Fyrsta ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs - mynd

Ríkisráð Íslands kom saman til tveggja funda á Bessastöðum í dag. Á fyrri fundinum endurstaðfesti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tillögur sem staðfestar höfðu verið utan ríkisráðs, þ. á m. tillögu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum. Á seinni fundinum féllst forseti Íslands á tillögu Katrínar Jakobsdóttur, alþingismanns, um skipun fyrsta ráðuneytis hennar og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra.

Samkvæmt úrskurðinum er störfum þannig skipt með ráðherrum:

 • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
 • Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
 • Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
 • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
 • Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
 • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
 • Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Einnig var staðfestur, að tillögu nýskipaðs forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, nýr forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Helstu breytingar frá gildandi úrskurði fela í sér að málefni hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi, þ.m.t. málefni Hagstofu Íslands, færist til forsætisráðuneytisins frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þá mun forsætisráðherra á ný taka við formennsku í Vísinda- og tækniráði en umsýsla og undirbúningur funda ráðsins verður áfram á verksviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Loks færast málefni upplýsingasamfélagsins, þ. á m. verkefnið Ísland.is, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins en málefnið heyrði áður undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, sem undirritaður var af formönnum flokkanna fyrr í dag, segir meðal annars að ný ríkisstjórn, sem spanni hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri, muni freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem komi Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna. Megináherslumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt sáttmálanum má skipta í eftirfarandi flokka:

 • Sterkt samfélag
 • Þróttmikið efnahagslíf
 • Umhverfi og loftslag
 • Nýsköpun og rannsóknir
 • Jöfn tækifæri
 • Lýðræði og gagnsæi
 • Alþjóðamál

Sjá nánar sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira