Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Auknar fjárveitingar til meðferðar kynferðisbrota hjá lögreglu og héraðssaksóknara

Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota kynnt. Frá vinstri: Ragna Bjarnadóttir skrifstofustjóri, Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Svala Ísfeld Ólafsdóttir sérfræðingur. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti í dag á blaðamannafundi í dómsmálaráðuneytinu aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og áform um eflingu löggæslunnar í landinu. Auka á fjárveitingar til að bæta við stöðugildum hjá lögreglu og hjá héraðssaksóknara, til að auka endurmenntun og til að bæta rannsóknarbúnað og verklagsreglur hjá lögreglu.

Jafnframt tilkynnti ráðherra um að liður í þessari eflingu væri nýtt stöðugildi í dómsmálaráðuneytinu. Hefur Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sem verið hefur dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, verið ráðin til að sjá um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar. Svala starfaði hjá dómsmálaráðuneytinu með hléum á árunum 1991-2003 og hefur hún stundað rannsóknir á kynferðisbrotum gegn börnum um árabil.

Alls verður bætt við 15 stöðugildum hjá lögregluembættunum og skiptast þau þannig að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær sex stöðugildi, tvö lögregluembætti fá tvö stöðugildi og önnur lögregluembætti sem fara með rannsóknir kynferðisbrota fá eitt stöðugildi hvert.

Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota var unnin af samráðshópi skipuðum fulltrúum frá Ríkissaksóknara, Héraðsaksóknara, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Dómstólaráði, Lögmannafélagi Íslands og Neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis og hefur dómsmálaráðherra samþykkt hana. Áætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu.

Á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar hefur nú verið ákveðið að grípa til eftirfarandi aðgerða:

1. Efling á öllum þáttum málsmeðferðar kynferðisbrota hjá lögreglu

Tryggja á samræmdar áherslur á landsvísu varðandi meðferð kynferðisbrota og er markmiðið að öll lögregluembætti á landinu séu í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Ákveðið hefur því verið að leggja 237 m.kr. viðbótarfjármagn á ársgrundvelli til eflingar lögreglunnar, sem mun skiptast niður í samræmi við afbrotatölfræði á öll lögregluembætti sem sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Í afbrotatölfræði fyrir landið allt má m.a. sjá heildarfjölda tilkynntra kynferðisbrota sl. ár.

Umdæmi

Tegund brots

2010

2011

2012

2013

2014

2015

2016

2017*

Austurland

Kynferðisbrot samtals

5

14

15

15

18

13

9

11

Höfuðborgarsvæðið

Kynferðisbrot samtals

200

220

236

416

238

276

277

308

Norðurland eystra

Kynferðisbrot samtals

36

25

36

63

34

44

41

33

Norðurland vestra

Kynferðisbrot samtals

2

6

2

4

1

3

6

5

Suðurland

Kynferðisbrot samtals

17

23

12

33

39

33

32

51

Suðurnes

Kynferðisbrot samtals

27

29

27

142

38

29

109

43

Vestfirðir

Kynferðisbrot samtals

17

4

14

24

25

10

11

8

Vestmannaeyjar

Kynferðisbrot samtals

8

18

8

2

5

16

9

22

Vesturland

Kynferðisbrot samtals

11

24

15

29

19

18

4

6

*Bráðabirgðatölur fyrir árið 2017.

Ljóst er að meirihluti kynferðisbrota er tilkynntur á höfuðborgarsvæðinu. Til að bregðast við því og að stytta málsmeðferðartíma hjá embættinu er því lagt til að bæta við fjórum stöðugildum rannsóknarlögreglumanna, einu stöðugildi ákærenda og einu afleiddu stöðugildi í stoðþjónustu. Einnig er lagt til að efla öll lögregluembætti sem fara með rannsókn kynferðisbrota þannig að fjölgað verði um stöðugildi hjá öllum embættum.

2. Efling við meðferð kynferðisbrota hjá embætti Héraðssaksóknara

Ákveðið hefur verið að leggja til 50 m. kr. viðbótarfjármagn á ársgrundvelli til að fjölga stöðugildum hjá embættinu sem sinna meðferð kynferðisbrota hjá embættinu.

3. Endurmenntun og fræðsla

Í aðgerðaráætluninni er lögð áhersla á virka endurmenntunarstefnu innan réttarvörslukerfisins, bæði hvað varðar menntun og þjálfun lögreglu og menntun ákærenda. Verður endurmenntun á þessu sviði því efld með því að styrkja bæði mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og embætti ríkissaksóknara en nánar á eftir að útfæra þennan þátt áætlunarinnar.   

4. Uppfærðir gæðastaðlar/verklagsreglur fyrir lögreglu

Lagt er til að leggja 40 m. kr. í að uppfæra verklagsreglur og rannsóknarbúnað hjá lögreglu til mæta þeim áherslum sem fram koma í aðgerðaáætluninni. Unnið er að nánari útfærslu á þessum þætti.

5. Rafrænt gagnaflæði

Í aðgerðaáætluninni kemur fram að tryggja þurfi skilvirkt og öruggt gagnaflæði milli lögreglu og ákæruvalds ásamt miðlun gagna milli ákæruvalds og dómstóla og milli lög­manna og réttargæslumanna sem koma að málunum. Þá er fjallað um í aðgerðaáætluninni að kanna hvort unnt sé að koma á vefsvæði undir formerkjum „Mínar síður“ sem ætlað er sak­born­ingum, brotaþolum og/eða lögmönnum/réttargæslumönnum til að bæta upplýsingamiðlun um stöðu rann­sókna eða til að koma viðeigandi gögnum á framfæri. Hefur því verið ákveðið að leggja fram alls 240 m. kr. til þess verkefnis á næstu þremur árum.

6. Stöðugildi hjá dómsmálaráðuneyti

Mikilvægt er að ráðuneytið geti fylgt eftir samræmingu málsmeðferðar kynferðisbrota á landsvísu á grundvelli aðgerðaáætluninnar, ásamt því m.a. að hefja vinnu í tengslum við endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot í samræmi við áætlunina. Verður því bætt við einu stöðugildi í ráðuneytinu til að fylgja eftir þessari vinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum