Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrvinnslu stöðugleikaeigna lýkur

Félagið Lindarhvoll ehf., sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu svokallaðra stöðugleikaeigna, lauk á dögunum opnu söluferli Lyfju hf. með undirritun kaupsamnings við SID ehf. Það félag er í eigu SIA III, Þarabakka ehf. og Kasks ehf.

Með sölunni á Lyfju hf. í opnu söluferli er ráðstöfun stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols lokið. Félagið hefur með sölunni komið langstærstum hluta þeirra eigna sem því var falin umsýsla með í laust fé. Samkomulag er um það milli stjórnar Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fella við svo búið niður samning sem ráðuneytið gerði við félagið í apríl 2016 um úrvinnslu og umsýslu stöðugleikaeigna frá og með 7. febrúar. Í kjölfarið verður Lindarhvoli ehf. slitið.

Þær takmörkuðu stöðugleikaeignir sem eftir standa eru þess eðlis að virði þeirra verður best endurheimt með tíð og tíma. Að stærstum hluta er um að ræða kröfur í þrotabú og önnur innheimtumál, lánasamninga, fjársópseignir og skuldabréf Kaupþings, auk afkomuskiptasamnings sem tengist sölu á Arion banka. Umsýslu og eftirliti með umræddum eignum verður áfram sinnt í umboði ríkissjóðs og mun andvirði þeirra skila sér inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs við fullnustu. Til viðbótar eru nokkrar óverulegar stöður í óskráðum hlutabréfum og verður umsýslu þeirra komið fyrir í höndum viðeigandi ríkisaðila. 

Andvirði stöðugleikaeigna ráðstafað til lækkunar skulda

Andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem búið er að innleysa nemur alls um 207,5 ma.kr., en þá eru frátalin framlög vegna viðskiptabanka og aðrar óinnleystar eignir. Þessari fjárhæð hefur lögum samkvæmt verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands og þær nýttar til að greiða niður útistandandi skuldir ríkissjóðs, til að mæta tekjutapi vegna lsérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og til að fjármagna lífeyrisskuldbindingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum