Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Leggja til leiðréttingu klukku til samræmis við gang sólar

Sveinbjörn Kristjánsson, Ásthildur Knútsdóttir og Björg Þorleifsdóttir fulltrúar í klukkuhópnum ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem falið var að kanna mögulegan ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna til samræmis við sólarganginn hefur skilað heilbrigðisráðherra greinargerð með tillögu þess efnis.

Í greinargerðinni kemur fram að sólarupprás og sólsetur verður að meðaltali einni klukkustund síðar hér á landi en ef miðað er við rétt tímabelti. Þetta misræmi var leitt í lög árið 1968 með svokölluðum miðtíma sem ákveðinn var fyrst og fremst með efnahags- og viðskiptahagsmuni að leiðarljósi. Bent er á að hin síðari ár hafi vísindarannsóknir leitt í ljós neikvæð áhrif þessa á heilsufar fólks. Það skýrist af því að líkamsklukkan sem samhæfir starfsemi líkamans, þarf birtuboð til að halda réttum takti og þar ræður sólarupprásin hvað mestu. Seinki líkamsklukkunni er hætta á að svefntíminn skerðist og með því aukast líkur á ýmsum sjúkdómum, s.s. offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig veldur þetta lakari framleiðni og kemur t.d. niður á námsárangri í skólum auk þess sem sýnt hefur verið fram á samband milli seinkaðrar líkamsklukku og aukinnar depurðar/þunglyndis hjá unglingum og ungu fólki.

Íslendingar fara seinna að sofa en tíðkast í nágrannalöndunum. Fram kemur í greinargerðinni að svefntími íslenskra unglinga sé skemmri en hjá evrópskum jafnöldum þeirra, þeir sofi einungis um sex klukkustundir á virkum dögum og að svokölluð klukkuþreyta sé algeng meðal þeirra. Klukkuþreyta felst í því að háttatíma seinkar og er ekki í samræmi við fastákveðinn fótaferðartíma á virkum dögum og því skerðist svefntíminn.  Að mati starfshópsins er mögulegt að of lítill svefn hafi áhrif á hátt brottfall nemenda úr framhaldsskólum hér á landi.

Tillaga starfshópsins felur í sér að klukkan yrði færð aftur um eina klukkustund sem myndi seinka fótaferð fólks sem því nemur. Með því móti myndi birtustundum á morgnana fjölga um 13% (vestast á landinu) í svartasta skammdeginu (nóvember – janúar) og vetrardögum þar sem bjart er orðið kl. 9.00 myndi fjölga um 64. Birtustundum síðdegis myndi við þessa breytingu fækka um 13% en skerðing þeirra yrði aðallega snemm- og síðsumars, þ.e. í apríl og ágúst.

Starfshópurinn mælir gegn því að hafa sumar- og vetrartíma og vísar til þess að rannsóknir bendi til þess að slíkar breytingar hafi neikvæð áhrif á heilsu fólks.

Starfshópurinn kynnti niðurstöðu sína á fundi með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra síðdegis í dag. Svandís segir gott að nú hafi verið dregin saman helstu rök í þessu máli sem snúa að lýðheilsu landsmanna. Minnisblaðið muni hún kynna fyrir ríkisstjórn því ákvörðun um að breyta klukkunni hafi áhrif á marga þætti í samfélaginu. „Slík ákvörðun þarf að byggjast á þroskaðri umræðu. Því er mikilvægt að fólk sé reiðubúið að ræða þetta mál af skynsemi og velta fyrir sér rökum með og á móti áður en það myndar sér afstöðu, því þetta skiptir sannarlega máli“ segir heilbrigðisráðherra.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum