Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fyrirlestur um netöryggisrannsóknir

Dr. Katrin Franke, prófessor í tölvuvísindum og netöryggismálum, heldur fyrirlestur um netöryggisrannsóknir við Tækniháskóla Noregs (NTNU) í Gjøvik og samstarf opinberra aðila og einkaaðila við uppbyggingu þessara rannsókna. Eitt slíkra verkefna sem kynnt verður er uppbygging á nýju æfingasvæði þar sem unnt verður að rannsaka og æfa viðbrögð við samverkandi áhrifum víðtækra netárása.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík, þriðjudaginn 20. febrúar kl. 17 og er í samvinnu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis (sem fer með netöryggismál), Netöryggisráðs, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík ásamt NTNU. Fyrirlesturinn er liður í samvinnu þessara aðila til að efla netöryggi hérlendis og efla kennslu og rannsóknir á því sviði.

Tækniháskóli Noregs er meðal fremstu háskóla Norðurlanda á sviði netöryggis og í Gjøvik eru jafnframt ýmsar norskar stofnanir sem sinna netöryggi, sumt af starfi þessara stofnana og háskólans er unnið í samvinnu við einkafyrirtæki. Dr. Katrin Franke hefur átt stóran þátt í að byggja upp hluta þessa náms í netöryggisfræðum og samstarf við opinbera aðila jafnt sem einkafyrirtæki. Hún er einnig mikilvirkur vísindamaður og hefur ritað fjölda greina í ritrýnd vísindarit.

Nánari upplýsingar um Katrin Franke, starf hennar og rit.

Katrin Franke er í þriggja manna hópi sem kemur hingað til lands frá NTNU til að kynna framhaldsnám við háskólann fyrir háskólanemum sem eru að ljúka grunnnámi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Kynningarfundir verða haldnir fyrir nemendur fyrr um daginn í háskólunum tveimur. Samvinnan við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík miðar m.a. að því að gefa nemendum tækifæri til að takast á við rannsóknaverkefni tengd íslensku samfélagi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira